Utanríkisráðuneyti Slóvakíu hefur áhyggjur af auknum umsvifum mótorhjólagengisins Næturúlfanna sem tengist Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Gengið aðhyllist rússneska þjóðernishyggju og hefur komið upp bækistöð í Dolna Krupa sem er um 70 kílómetra frá Bratislava, höfuðborg Slóvakíu.
Rússnesk stjórnvöld kalla bækistöð þeirra „evrópsku höfuðstöðvar“ Næturúlfanna, segir í frétt BBC. Mótorhjólagengið sætir hins vegar þvingunaraðgerðum af hálfu bandarískra yfirvalda fyrir að sjá uppreisnarmönnum í Úkraínu fyrir vopnum og öðrum hernaðargögnum.
Talsmaður slóvakíska utanríkisráðuneytisins, Peter Susko, segir við BBC að fylgst verði grannt með starfsemi Næturúlfanna. „Við teljum félagsmenn þeirra skapa ógn, sérstaklega skoðanir þeirra, sem miða að því að endurskrifa söguna,“ segir hann.
Umdeildar skoðanir gengisins eru meðal annarra að Stalín hafi verið hetja, að NATO séu glæpasamtök og að Krím hafi verið og muni vera rússneskt, að sögn Susko.
Rússnesku mótorhjólamennirnir segjast vera að gera bækistöð sína að safni til heiðurs sovéskum hermönnum sem notuðu mótorhjól í seinni heimsstyrjöld.
Leiðtogi Næturúlfanna, Alexander Zaldostanov, sem er einnig þekkur sem „skurðlæknirinn“, segir í tilkynningu að tilkoma bækistöðvar gengisins sé ekki ólík því þegar Sovétríkin „frelsuðu“ Slóvakíu undan fasismanum í seinni heimsstyrjöldinni.
Næturúlfarnir njóta stuðnings slóvakísks þjóðernishyggjuhóps, NV Europa, sem deilir aðsetri með Næturúlfunum í Dolna Krupa.
Zaldostanov er sagður hafa beina tenginu við rússnesk yfirvöld þrátt fyrir að starfsemi Næturúlfanna sé skráð sem samtök. Árið 2011 keyrði hópurinn ásamt Pútín um mótorhjólahátíð í Novorossiysk í Rússlandi og 2013 sæmdi Pútín leiðtogann, Zaldostanov, heiðursorðu í Moskvu.
Zaldostanov er ásamt mörgum á lista rússneskra stjórnmálamanna, embættismanna og yfirmanna hersins sem sæta þvingunaraðgerðum vegna aðkomu að afskiptum Rússa á Krímskaga og í austurhluta Úkraínu.
Tvö fyrirtæki tengd Næturúlfunum eru einnig á slíkum lista, en þau eru annars vegar Wolf Holding of Security Structures, sem sagt er selja herþjónustu og hernaðargögn, og hins vegar Bike Center sem er skráð í eigu Zaldostanov.
Samkvæmt slóvensku sjónvarpsstöðinni TV Noviny hafa Næturúlfarnir um 5.000 félagsmenn og aðildarfélög í fleiri Evrópuríkjum, meðal annars Serbíu, Rúmeníu, Makedóníu og Búlgaríu. Árlega ferðast samtökin um Evrópu til þess að fagna sigri Sovétríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni.
Árið 2016 vísuðu lettnesk stjórnvöld leiðtoga Næturúlfanna í Lettlandi, Igor Lakatosh, úr landi af öryggisástæðum. Þá hafa pólsk yfirvöld bannað félagsmönnum samtakanna að koma til landsins, sem vakti hörð viðbrögð í Rússlandi.