Mega ekki niðurlægja eða ógna

Kona klæðist búrku. Þeir sem klæðast búrku eða níqab í …
Kona klæðist búrku. Þeir sem klæðast búrku eða níqab í Danmörku frá og með deginum í dag geta átt von á sekt. AFP

Búrkubann, sem danska þingið samþykkti í vor, tekur gildi í dag. Hér eftir getur hver sá sem klæðist búrku, niqab-andlitsslæðu eða er með gerviskegg á almannafæri átt von á að þurfa að greiða allt að 1.000 danskar krónur í sekt, eða rúmar 16.000 íslenskar krónur.

Danska ríkisútvarpið DR segir embætti ríkislögreglustjóra hafa sent lögregluembættum landsins leiðbeiningar um hvernig taka eiga á málunum þar sem um brot á lögunum sé að ræða. M.a. að lögreglu beri að taka á brotunum á sama hátt og hverju öðru broti á refsilöggjöfinni.

DR segir gagnrýnisraddir hins vegar heyrast nú þegar frá landssamtökum lögreglumanna. „Ég leyni því ekki að ég hefði vilja fá ítarlegri leiðbeiningar,“ segir Claus Oxfeldt, formaður danska landssambandsins. Hefur ríkislögreglustjóraembættið tilkynnt að það muni yfirfara leiðbeiningarnar eftir um það bil mánuð. Kveðst Oxfelt hafa áhyggjur af því að þetta geti farið verulega úrskeiðis, til að mynda endi upptökur af dönskum lögreglumönnum að bregðast við búrkubanninu í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Vill Oxfelt fá skýrari leiðbeiningar fyrir lögreglumenn og nefnir sem dæmi japanska ferðamenn í Danmörku sem margir hverjir bera grímu sem hylur nef og munn til að forðast mengun. „Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að líta á það sem brot á lögunum,“ segir hann.

Aðstoðarlögreglustjórinn Benny Øchkenholt, hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir leiðbeiningarnar alveg nógu skýrar og að lögreglumenn geti metið hvert og eitt tilfelli sem þeim mætir á götum borgarinnar.

„Almennt varðandi bannið þá er mikilvægt að engir upplifi að verið sé að ógna þeim eða niðurlægja,“ segir Øchkenholt. „Það verður að sýna virðingu eins og í öllum öðrum málum.“

Leiðbeiningarnar til lögreglu hafa verið í vinnslu síðan í maí og sagði dómsmálaráðherrann, Søren Pape Poulsen, við það tækifæri að banninu myndu fylgja ítarlegar leiðbeiningar.

Oxfeldt hefur engu að síður áhyggjur af hvað gerist ef lögreglumaður telji lögin hafa verið brotin, en málið verði svo fellt niður og fái fjölmiðlaathygli víða um heim. Það geti haft alvarleg áhrif, ekki bara fyrir viðkomandi lögreglumann, heldur dönsku lögregluna í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert