Saka Rússa um útbreidd kosningaafskipti

Kirstjen Nielsen varnarmálaráðherra í pontu. Til vinstri er Dan Coats.
Kirstjen Nielsen varnarmálaráðherra í pontu. Til vinstri er Dan Coats. AFP

Fjöldi bandarískra þjóðaröryggisstjóra hefur varað við að bandarísku lýðræði standi ógn af erlendum andstæðingum vegna þingkosninganna 2018 og forsetakosninganna 2020.

„Við sjáum enn útbreidda herferð Rússa til að reyna að veikja og sundra Bandaríkjunum,“ sagði Dan Coats, yfirmaður National Intelligence-öryggisstofnunarinnar, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. Coats, sem er fyrrverandi þingmaður repúblikana og sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi, sagði að tilraunirnar væru viðaminni nú en árið 2016 og virtust ekki beinast að einum flokki.

Stjórnvöld í Kreml hafa ítrekað hafnað fullyrðingum bandarískra embættismanna um að hafa haft puttana í forsetakosningunum.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, Chris Wray, forstjóri alríkislögreglunnar (FBI), Paul Nakasone, forstjóri Þjóðaröryggisstofnunarinnar (NSA) og Kirstjen Nielsen varnarmálaráðherra ávörpuðu fundinn einnig.

Hættan er raunveruleg

Coats sagði Rússa ekki einu þjóðina sem reyndi að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum, án þess að fara nánar út í það. „Okkar hlutverk hér er einfaldlega að láta Bandaríkjamenn vita að við fylgjumst með  hættunni. Hún er raunveruleg,“ sagði Coats og bætti við að öryggisstofnanirnar funduðu vikulega nú í aðdraganda þingkosninga sem haldnar verða í nóvember.

Donald Trump Bandaríkjaforseti var gagnrýndur víða í síðasta mánuði fyrir að hafa ekki fordæmt hin meintu afskipti Rússa af forsetakosningunum, er hann hitti Pútín Rússlandsforseta í Helsinki. Forsetinn hefur reglulega kallað rannsókn á Rússaafskiptunum, og því hvort liðsmenn kosningateymis hans hafi verið með í ráðum, „nornaveiðar“.

Á fundinum í Helsinki lét forsetinn jafnframt hafa eftir sér að hann sæi enga ástæðu fyrir því að Rússar ættu að hafa haft áhrif á forsetakosningarnar, þvert á álit þjóðaröryggisstofnananna. Daginn eftir sendi forsetinn frá sér leiðréttingu þar sem hann sagðist hafa mismælt sig.

Það sem hann hefði ætlað að segja var að „hann sæi enga ástæðu fyrir því að Rússar ættu ekki að hafa haft áhrif á forsetakosningarnar“.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert