Frans páfi segir að dauðarefsing eigi aldrei rétt á sér, „því hún er árás á friðhelgi og sæmd hvers manns“. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vatíkaninu í dag. Um stefnubreytingu er að ræða hjá kaþólsku kirkjunni.
Frans hefur áður gagnrýnt dauðarefsingar, m.a. í ræðu sem hann hélt árið 2015. Páfinn er trúarleiðtogi 1,2 milljarða kaþólskra manna. Nú segir hann að kaþólska kirkjan muni af festu vinna að því að útrýma dauðarefsingum í heiminum.
Samkvæmt bókum kaþólskra var dauðarefsing áður leyfileg í ákveðnum tilvikum, þ.e. ef hún var „eina leiðin til að verja mannslíf gegn árásarmanni“.
Í hinum nýja boðskap kirkjunnar kemur fram að aðrar leiðir séu færar til að vernda samfélög manna. Framfarir hafi orðið í refsivist sem tryggi vernd borgaranna.