20 manns létust í flugslysi í svissnesku ölpunum í gær. Flugvélin, sem er frá árinu 1939 og var meðal annars notuð í seinni heimsstyrjöldinni, hrapaði í fjallshlíð í Piz Segnas í um 2.500 metra hæð. Tvö mannskæð slys hafa orðið í Sviss um helgina.
11 karlar og 9 konur voru um borð í vélinni. Flugvélin flaug frá Ticino í suðurhluta Sviss og var ferðinni heitið til herflugvallarins Duebendorf í Zurich.
„Vélin tók 180 gráðu stefnu í suður og kolféll til jarðar,“ hefur dagblaðið 20 Minutes eftir sjónarvotti. Brak vélarinnar þeyttist í allar áttir sem gefur til kynna að sprenging hafi orðið í vélinni.
Rannsókn er hafin á tildrögum slyssins. Sökum aldurs vélarinnar er enginn flugriti um borð og því þurfa rannsakendur að reiða sig á vitnisburð sjónarvotta og brak vélarinnar við rannsóknina.
Flugvélin er í eigu JU-Air, fyrirtækis sem tengist svissneska flughernum. Framkvæmdastjóri JU-Air, Kurt Waldmeier, segir að vélin hafi farið í gegnum reglubundið eftirlit í júlí. Fyrirtækið rekur lítinn flota af Junker-flugvélum sem eru allar frá árinu 1939. Vélarnar eru til útleigu og eru allir flugmenn á vegum fyrirtækisins fyrrverandi hermenn og atvinnuflugmenn.