Kveikt í tugum bíla í Gautaborg

Hópur ungmenna hefur kveikt í tugum bíla í Gautaborg í …
Hópur ungmenna hefur kveikt í tugum bíla í Gautaborg í kvöld. Ljósmynd/Twitter

Hópur svartklæddra ungmenna hefur kveikt í yfir tuttugu bílum í Gautaborg í kvöld. Lögreglunni bárust fyrstu tilkynningar um íkveikju laust eftir klukkan 21 að staðartíma í nágrenni við Frölunda-torg. Skömmu síðar bárust einnig tilkynningar um íkveikju í bílum í Hjällbo og Trollhättan. Þá hefur einnig verið kveikt í dekkjum.

Ulla Brehm, talsmaður sænsku lögreglunnar í Gautaborg, segir að ekki sé vitað til þess að fólk hafi slasast í tengslum við íkveikjurnar. Grunur leikur á að um skipulagðar aðgerðir sé að ræða. „Tengslin eru þau að íkveikjurnar eru svipaðar á hverjum stað,“ segir Brehm í samtali við Expressen.

„Þetta var skipulagt. Þeir vildu vinna eins mikinn skaða og mögulegt er. Bíll sprakk í loft upp, þetta var klikkað. Ég var mjög hræddur,“ hefur Expressen eftir vitni að einni íkveikjunni.

Enginn er í haldi lögreglu vegna málsins að svo stöddu.  

Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá þegar kveikt var í 14 bílum við verslunarmiðstöð í borginni í kvöld:

Ulf Kristersson, formaður sænska Íhaldsflokksins, Moderaterna, tjáir sig um íkveikjurnar á Facebook í kvöld. „Þetta eru ekki mótmæli, þetta eru skemmdarverk. Svíþjóð hefur þurft að þola þetta of lengi. Nú verður þessu að linna,“ skrifar Kristersson meðal annars í færslu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert