Fyrirhuguðum fjöldafundi hvítra hægriöfgamanna sem halda átti við Hvíta húsið í Washington í gær var fljótlega hætt þegar mótmælendur gegn fundinum reyndust fundargestum mun fleiri. Boðað hafði verið til fundarins í tilefni þess að í gær var ár liði frá fjöldafundi hægri öfgamanna í Charlottesville í Virginíu sem kostaði einn lífið.
Ekki mættu nema um 20 hægriöfgamenn á fundinn í Washington í gær, en hundruð höfðu hins vegar safnast saman í nágrenninu til að mótmæla fundinum og fordæma kynþáttahatur.
Búist hafði verið við um 400 þátttakendum og átti fundurinn að vara í um tvær klukkustundir, fundargestir létu sig hins vegar hverfa eftir um hálftíma þegar ljóst var hversu dræm þátttakan var.
Mikil öryggisgæsla var á staðnum og meðferð skotvopna bönnuð, en lögregla sá um að skilja að hægriöfgamenn og þá sem mótmæltu veru þeirra, m.a. með hrópum á borð við: „skammist ykkar“ og „yfirgefið borgina mína“ að því er BBC greinir frá.
Ivanka Trump, dóttir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og ráðgjafi forsetans, fordæmdi á Twitter í gær með afdráttarlausum hætti hvers kyns rasisma, nýnasisma og yfirburði hvítra einstaklinga yfir öðrum kynþáttum. Athygli vakti að Ivanka tjáði sig með hætti sem faðir hennar hefur hingað til ekki viljað gera.