Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Tyrki munu sniðganga bandarískar rafvörur til að bregðast við refsiaðgerðum bandarískra stjórnvalda.
Donald Trump tilkynnti fyrir helgi að tollar á tyrkneskt stál og ál yrðu tvöfaldaðir. Líran hrundi um 20% gagnvart Bandaríkjadal þann dag og hélt áfram að falla í gær.
Ástæða tollahækkunarinnar er ágreiningur milli bandarískra stjórnvalda og tyrkneskra, en Bandaríkjamenn hafa ítrekað krafist þess að Bandaríkjamanninum Andrew Brunson verði sleppt úr haldi Tyrkja en Tyrkir saka hann um tengsl við Fethullah Gulen og valdaránstilraunina sem var gerð í Tyrklandi 2016. Þá vilja Tyrkir fá Gulen framseldan frá Bandaríkjunum sem Bandaríkjastjórn ætlar ekki að verða við.
„Við munum sniðganga rafvörur frá Bandaríkjunum,“ sagði Erdogan í sjónvarpsávarpi. „Ef Bandaríkin eru með iPhone, þá er Samsung hinum megin,“ bætti forsetinn við og vísað þar til farsíma fyrirtækjanna tveggja. „Svo erum við líka með Venus og Vestel,“ sagði Erdogan, en báðar tegundir eru tyrkneskar.