Að minnsta kosti 35 létu lífið þegar um 200 metra kafli Morandi-brúarinnar hrundi á Ítalíu fyrr í dag. Bílar hrundu niður um hundrað metra þegar hluti brúargólfsins féll og höfnuðu á lestarteinum fyrir neðan brúna.
Hér er það sem vitað er um brúna, hrunið og viðbrögð vegna hrunsins.
Morandi-brúin liggur um fimm kílómetra vestur af borginni Genúa og var byggð á sjöunda áratug síðustu aldar. Byggingu brúarinnar lauk árið 1967 og voru gerðar endurbætur á henni fyrir tveimur árum. Morandi-brúin er nefnd í höfuðið á arkitektinum sem hannaði hana.
Brúin er hluti af hraðbraut A10 og er um 100 metra há. Þar sem Genúa er staðsett milli sjávar og fjalla á norðvesturhluta Ítalíu gerir fjalllent landsvæðið það að verkum að hraðbrautir í kringum borgina eru ýmist á brúarstólpum eða í jarðgöngum.
Klukkan tíu í morgun að staðartíma, um hádegi að íslenskum tíma, féll um 200 metra hluti brúarinnar.
Viðgerðir á kaflanum stóðu yfir, samkvæmt upplýsingum frá Autostrade, vegavinnufyrirtæki sem sá um viðgerðirnar.
Mikil rigning var á svæðinu um það leyti sem brúin hrundi og hefur breska ríkisútvarpið það eftir sjónarvotti að eldingu laust niður í brúna rétt áður en hún hrundi.
Tala látinna hefur ekki verið staðfest, en Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, segir að um 30 manns séu látnir. AFP-fréttastofan hefur eftir talsmanni almannavarna að 20 séu látnir, 16 slasaðir og þar af 10 alvarlega. Þá hefur fengist staðfest að barn er meðal hinna látnu. Búast má við því að tala látinna fari hækkandi.
Um 200 slökkviliðsmenn eru á vettvangi að vinna að björgun fólks. Björgunarmenn láta sig síga ofan í rústirnar og á meðfylgjandi myndskeiði má sjá hvernig kranar eru notaðir við björgunarstörf. Talið er að um 35 bílar hafi fallið fram af brúnni og grafist undir rústunum. Tekist hefur að losa fjóra úr bílum sínum með klippum.
Salvini segir að hrun brúarinnar verði rannsakað ítarlega og allt kapp verði lagt á að finna hver ber ábyrgð á hruninu. „Það er ekki mögulegt árið 2018 að svona nokkuð gerist,“ segir Salvini.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur boðið fram aðstoð Frakka sé hennar óskað. Þá segir Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að hugsanir hennar og þýsku þjóðarinnar séu hjá fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra.