Breska lögreglan tilkynnti nú fyrir skemmstu að atvikið þegar bíl var ekið á hindranir við breska þinghúsið í morgun með þeim afleiðingum að tveir særðust sé nú rannsakað sem hryðjuverk.
Ökumaðurinn, sem var handtekinn á vettvangi, er nú í varðhaldi á grundvelli hryðjuverkalaga að því er BBC greinir frá.
Atvikið átti sér stað um hálfáttaleytið í morgun að staðartíma, en silfurlitum bíl var þá ekið á hindranir sem umkringja þinghúsið. Tveir hjólreiðamenn slösuðust, en meiðsl þeirra eru ekki talin alvarleg.
Lögregla umkringdi skömmu síðar bílinn og maður á þrítugsaldri var leiddur á brott í járnum.
Enginn annar var í bílnum og engin vopn hafa enn fundist að sögn BBC.
„Eins og er lítum við á atvikið sem hryðjuverk og hryðjuverkadeild London-lögreglunnar fer nú með rannsóknina,“ segir í yfirlýsingu frá Scotland Yard.
Tæknideild lögreglunnar er enn að rannsaka bílinn sem ekki hefur verið fluttur á brott.
Nokkur fjöldi sjónarvotta á vettvangi hefur sagt að svo virðist sem silfurlitum bílnum hafi viljandi verið ekið á fólkið. „Ég held að þetta hafi verið viljandi,“ segir Ewalina Ochab. „Bíllinn ók hratt í átt að hindrununum.“
Sjálf var hún á gangstéttinni hinum megin vegarins. „Ég heyrði hávaða og einhver öskraði. Ég sneri mér við og sá þá silfurlitan bíl aka mjög hratt, jafnvel á gangstéttinni, á rimlagrindverkið.“