Ítalska leikkonan Asia Argento þvertekur fyrir að hafa beitt leikarann Jimmy Bennett kynferðislegu ofbeldi þegar hann var 17 ára. Hún segir að 380 þúsund Bandaríkjadalir, 41 milljón króna, sem hún greiddi honum hafi verið hugmynd frá þáverandi kærasta hennar til að aðstoða Bennett fjárhagslega.
Greint var frá ásökunum á hendur Argento í New York Times í gær. Bennett segir að Argento hafi ráðist á hann á hótelherbergi í Kaliforníu árið 2013. Hann hafi síðan fengið greidda 380 þúsund Bandaríkjadali fyrir að þegja um málið samkvæmt því sem fram kemur í málsskjölum sem NYT fékk send frá óþekktum aðila.
Bennett var nýlega orðinn 17 ára gamall þegar Argento á að hafa beitt hann ofbeldi. Í Kaliforníu eru samþykkisaldursmörkin 18 ára. Hann er 22 ára gamall í dag en Argento er rúmlega fertug.
„Ég er særð og í áfalli yfir því að þurfa að lesa svo ósannar fréttir. Ég hef aldrei átt í kynferðislegu sambandi við Bennett,“ var meðal þess sem kom fram í yfirlýsingu sem Argento sendi frá sér.
Argento sagði enn fremur að hún og Bennett hefðu verið vinir um tíma. Hún sagði að Bennett hefði átt í miklum fjárhagsvandræðum og að hann hefði höfðað mál gegn fjölskyldu sinni og farið fram á háar fjárhæðir frá henni.
Í framhaldi af því segir Argento að Bennett hafi beðið hana um peninga eftir að hún steig fram og greindi frá því opinberlega að Harvey Weinstein hefði nauðgað henni. Þáverandi kærasti hennar, Anthony Bourdain, vildi greiða Bennett en með því vonaðist Bourdain til þess að Bennett léti þau í friði.