Krafðist aksturspeninga en var erlendis

Sænski þingmaðurinn Michael Svensson hefur sagt af sér í dag …
Sænski þingmaðurinn Michael Svensson hefur sagt af sér í dag vegna rökstudds gruns um að akstursskýrslur hans séu ósannar. Ljósmynd/Johan Fredriksson

Michael Svensson, þingmaður Moderaterna á sænska þinginu, sagði af sér í dag í kjölfar þess að komst upp um að hann falsaði akstursskýrslur sem voru til grundvallar greiðslu aksturspeninga. Þá á hann að hafa sótt árlegu stjórnmálaráðstefnuna í Almedalen og látið þingið greiða fyrir gistingu kærustunnar.

Aftonbladet komst að misferli í skráningu aksturs þingmannsins eftir að hafa yfirfarið ferðareikning hans. Krafðist þingmaðurinn greiðslu fyrir 2.025 kílómetra akstur milli sænskra kaupstaða á tímabilinu 3. til 13. janúar 2018.

Svensson birti hins vegar stöðufærslu á Facebook 31. desember 2017 þar sem hann óskaði öllum vinum gleðilegs nýs árs, færslan var skráð frá Taílandi. Þann 13. janúar birti þingmaðurinn að nýju stöðufærslu með myndum af sér og fríi sínu í Taílandi og sagði „á leið heim í hversdagsleikan eftir að hafa hlaðið batteríin almennilega.“

Aftonbladet birtir stöðufærslur þingmannsins frá Taílandi.
Aftonbladet birtir stöðufærslur þingmannsins frá Taílandi. Skjáskot

Fékk mestu akstursstyrkina

Þingmaðurinn hefur á tæpum fjórum árum innheimt 378 þúsund sænskar krónur, andvirði 4,5 milljóna íslenskra króna, í akstursstyrk frá sænska þinginu, mest allra sænskra þingmanna.

Vegna árlegrar stjórnmálaráðstefnu í Almedalen hefur Svensson þrjú ár í röð leigt stóra íbúð í Visby og samkvæmt reglum sænska þingsins ber þingmönnum að greiða 25% af kostnaði við gistingu ef maki er með í för. Kærasta þingmannsins hefur hins vegar verið með honum á ráðstefnunni án þess að Svensson tilkynnti skrifstofu þingsins um það.

Meira annt um flokkinn

„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að mér ber að segja af mér öllum embættum mínum þar sem mér er meira annt um flokkinn en sjálfan mig,“ segir Svensson í fréttatilkynningu til sænskra fjölmiðla í dag.

Þingmaðurinn á að hafa tjáð Hallands Nyheter að hann telji sig ekki geta komið flokki sínum að gagni og hann sé að valda flokknum skaða með viðveru sinni, en hann hefur verið skráður í Moderaterna frá árinu 1970. Svensson sagði einnig að hann gangi með höfuðið hátt og að hann skammist sín ekki fyrir neitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka