Eru vandræði Donalds Trump að aukast?

Ólíklegt er að atburðir gærdagsins komi til með að hafa …
Ólíklegt er að atburðir gærdagsins komi til með að hafa áhrif á Trump. AFP

Ætla má að gærdagurinn hafi lagst þungt í Donald Trump Bandaríkjaforseta. Annars vegar játaði fyrrverandi lögmaður hans, Michael Cohen, á sig skattsvik og brot á lögum um fjármögnun kosningabaráttu. Hins vegar var fyrrverandi kosningastjóri hans, Paul Manafort, sakfelldur fyrir átta ákæruliði um skatt- og fjársvik. Svo virðist sem það sé farið að þrengja verulega að forsetanum en í hversu mikilli hættu, ef nokkurri, er hann?

Þar sem þingkosningar eru á næsta leiti og demókratar eiga möguleika á að vinna meirihluta á þinginu, er rétt að skoða hvernig rannsókn sérstaks saksóknara Roberts Mueller, um afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016 og tengsl þeirrar rannsóknar við bæði Michael Cohen og Paul Manafort, geta komið til með að hafa áhrif á forsetann.

Robert Mueller.
Robert Mueller. AFP

Cohen hefur varpað grun á glæpsamlegt framferði Trump

Játning Michael Cohen um skattsvik og kosningalagabrot kemur líklega til með að hafa áhrif á afstöðu Mueller-rannsóknarinnar til Trump. Cohen, fyrrverandi persónulegur lögmaður Trump, sakaði forsetann til að byrja með um lygar en ekki nóg með það heldur sagði hann í vitnisburði sínum að „aðili-1“, Trump, hafi fyrirskipað honum árið 2016 að greiða tveimur konum, Karen MacDougal og Stephanie Clifford, fyrir þögn þeirra. Konurnar sökuðu Trump báðar um að hafa átt í ástarsambandi við þær á meðan hann var kvæntur. 

Forsetinn neitaði því fyrst um sinn að hafa vitað af greiðslunum. Lögmannateymi hans hefur síðan tekið þá fullyrðingu tilbaka og sagt að forsetinn byggi aðeins yfir almennri vitneskju um málið. Núna hins vegar segir Cohen að Trump hafi vitað af greiðslunum frá upphafi og enn fremur heldur hann því fram að Trump hafi fyrirskipað þær sem getur gert hann sekan.

Michael Cohen yfirgefur dómsalinn í gær.
Michael Cohen yfirgefur dómsalinn í gær. AFP

Þegar kemur að greiðslunni til Playboy-stjörnunnar Karen MacDougal er til upptaka af Cohen og Trump að ræða um greiðsluna sem gerir það að verkum ásakanirnar eru ekki einungis orð gegn orði á milli Cohen og Trump.

Þar fyrir utan gerir Stephanie Clifford, eða Stormy Daniels, sig líklega til að framfylgja ákæru sinni á hendur forsetans til þess að losa hana undan samningi um þagnareið sem Cohen hafði milligöngu um.

Dómari frestaði máli Daniels eftir að rannsóknin á Cohen hófst fyrr á árinu, en þar sem henni virðist vera lokið gæti ákæran varpað enn frekara ljósi á afskipti Trump af greiðslunum ólöglegu.

Sérstakur saksóknari náði fram sakfellingu

Sérstakur saksóknari, Robert Mueller, var undir mikilli pressu að tryggja að fyrrverandi stjórnarformaður forsetaframboðs Trumps, Paul Manafort, yrði sakfelldur fyrir skatt- og fjársvik. Jafnvel þó að ákærurnar tengdust kjarna rannsóknarinnar um afskipti Rússa af kosningunum ekki beint var þetta í fyrsta sinn sem teymi Muellers þurfti að ræða málið  fyrir kviðdómi.

Hefði Manafort verið sýknaður hefðu ásakanir Trump og stuðningsmanna hans um að rannsóknin væri eyðsla á tíma og aðföngum ef til vill fengið meiri hljómgrunn á meðal stjórnmálamanna og almennings.

Richard Westling, Kevin Downing og Thomas Zehnle, lögmenn Manafort, ganga …
Richard Westling, Kevin Downing og Thomas Zehnle, lögmenn Manafort, ganga út úr dómsalnum í gær. AFP

Þó að kviðdóminum hafi ekki tekist að komast að niðurstöðu í 10 af 18 ákæruliðum, þá ætti sakfelling í 8 liðum að nægja Mueller í bili.

Auk þess hefur komið fram fjöldi ákæra á hendur rússneskra einstaklinga og fyrirtækja og játningar þriggja fyrrverandi starfsmanna Trumps, George Papadopolous, Michael Flynn og Rick Gates, um meðal annars samskipti við Rússa. Rannsóknarteymi Mueller hefur því sífellt verið að styrkja stöðu sína gagnvart forsetanum.

Pressan á Manafort er að aukast

Eftir að úrskurðir lágu fyrir í gær sagði lögmaður Manafort við fjölmiðla að umbjóðandi hans væri „vonsvikinn“. Jafnvel þótt hann hafi aðeins verið sakfelldur fyrir tæplega helming ákæruliða gæti hann verið að horfa fram á 80 ára fangelsisdóm.

Manafort stendur frammi fyrir öðrum réttarhöldum í næsta mánuði fyrir peningaþvætti, lygar og fleira sem er í raun umfangsmesta málið gegn honum. 80 ára fangelsi fyrir skattsvik er því ekki stærsta áhyggjuefni hans.

Lögmenn Manafort höfðu farið fram á að málið yrði tekið fyrir í tvennum réttarhöldum. Ef til vill héldu þeir að Manafort væri líklegri til að verða sýknaður af vinsamlegum kviðdómi og dómurum í Virginíu þar sem réttarhöldin í gær fóru fram. Sé það ástæðan þá skjátlaðist þeim.  

Manafort gæti verið að vonast eftir náðun forsetans, enda sagði Trump að lögsóknin gegn honum væri pólitísk og að hann væri „góður maður“. Forsetinn getur hins vegar eingöngu náðað menn fyrir alríkisglæpi sem mál Manafort heyrir ekki undir.

Paul Manafort var kosningastjóri Donalds Trump.
Paul Manafort var kosningastjóri Donalds Trump. AFP

Núna sér Manafort, 69 ára, fram á langan fangelsisdóm og áframhaldandi rimmu í dómsalnum. Hingað til hefur hann ekki sýnt neinn vilja til að vinna með Mueller og hans teymi, en eftir gærdaginn gæti það breyst.

Manafort fór á fundinn sem margoft hefur verið greint frá í Trump-turninum í júní 2016 með Donald Trump yngri og rússneskum fulltrúum undir þeim formerkjum að afla upplýsinga um Hillary Clinton sem gætu skaðað hennar framboð. Margt er á huldu um þann fund og í skiptum fyrir vægari fangelsisdóm gæti Manafort endað á því að gefa Mueller upplýsingar um hann.

Hvort sem hann ákveði að gera svo eða ekki, er það ekki jákvætt fyrir forsetann að fyrrverandi stjórnarformaður framboðs hans sé dæmdur glæpamaður.

Michael Flynn er enn þá samvinnuþýður

Það bar ef til vill minna á því en málum Cohen og Manafort en skrifstofa sérstaks saksóknara fór í gær fram á að dómsuppkvaðningu yfir fyrrverandi varnarmálaráðgjafa Trump, Michael Flynn, yrði frestað.

„Vegna stöðu rannsóknarinnar, trúir skrifstofa sérstaks saksóknara ekki að málið sé tilbúið til dómsuppkvaðningar á þessum tímapunkti,“ sögðu lögmenn Mueller.

Michael Flynn.
Michael Flynn. AFP

Þetta gæti gefið til kynna að Flynn, sem hefur viðurkennt að hafa logið að alríkislögreglunni um tengiliði sína við rússneska embættismenn, sé enn þá samvinnuþýður við Mueller og að hann sé enn mikilvægur fyrir rannsóknina. Það gæti líka þýtt að formleg dómsuppkvaðning gæti opinberað upplýsingar sem Mueller vill halda leyndum í bili.

Hvað gæti mögulega gerst?

Þótt ljóst sé að atburðir gærdagsins styrki ekki stöðu Trump, er ólíklegt að þeir muni hafa markverð áhrif á hann og hans forsetatíð, en óvíst er hver áhrifin verða í sögulegu samhengi.

„Fram til loka árs hef ég verulegar efasemdir um að nokkuð breytist varðandi stöðu Trumps. Niðurstöður í kosningum gætu haft einhver áhrif á hana en það þyrfti að vera mjög sterk sveifla fyrir demókrata,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur.

„Þingið er í höndunum á repúblikönunum sem fram að þessu hafa ekki sýnt neinn vilja eða áhuga á að bregðast við þeim ásökunum og ákærum sem hafa verið að koma fram. Þrátt fyrir að það sé mjög skýrt í stjórnarfari Bandaríkjanna að þarna beri þingið ábyrgð og eigi að veita forsetanum aðhald, þá hefur það ekki verið að gerast. Á meðan þessi forysta er í þinginu virðast vera litlar líkur á að eitthvað breytist,“ segir Silja.

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

„Það eru hins vegar kosningar eftir þrjá mánuði og nýtt þing kemur inn í janúar. Á grundvelli þessara mála og fleiri sem hafa verið að koma úr rannsókn Muellers eru alveg líkur á að nýtt þing geti reynt að gera eitthvað.“

Staðan gæti breyst í nóvember

Eftir fyrri tvö ár kjörtímabilsins benda skoðanakannanir í mörgum ríkjum til þess að kjósendur hallist að demókrötum. Silja segir þó að það eigi frekar við um fulltrúadeildina en öldungadeildina sem hefur dómsvaldið í höndum sér í embættisbrotum forseta.

„Eins og staðan er núna lítur út fyrir að demókratar komi vel út úr kosningunum í fulltrúadeildinni og þeir gætu náð stjórn á neðri deildinni. Hins vegar þarf töluvert mikið að breytast til að þeir nái stjórn á öldungadeildinni. Fulltrúardeildin hefur ákæruvald þannig að það væri hægt að fara í yfirheyrslur, það var það sem gerðist með Clinton á sínum tíma. En það er öldungadeildin sem virkar í rauninni eins og dómsvald í embættisbrotum forseta.“

„Eins og pólitíska andrúmsloftið er núna þar sem það virðist vera flokkurinn framar öllu öðru, þá myndi öldungadeildin í núverandi ástandi aldrei dæma Trump á liggur við neinum forsendum,“ segir Silja.

Fari svo að áframhaldandi rannsókn Muellers á afskiptum Rússa af kosningunum 2016, sem Cohen, Flynn og mögulega Manafort gætu allir fleytt áfram, leiði í ljós embættisbrot eða lögbrot fyrir forsetatíð hans, eru örlög Donalds Trump því nánast alveg í höndum þingsins sem er, eins og staðan er núna, honum hliðhollt.

„Eini annar möguleikinn er að nota 25. viðbótarákæði stjórnarskrárinnar þar sem meirihluti ríkisstjórnarinnar getur fjarlægt forsetann úr embætti. Þá ertu að tala um að fólk sem Trump hefur handvalið í kringum sig myndi snúast gegn honum. Þetta er allt saman fólk sem á honum stöðu sína að þakka,“ segir Silja.

Í augnablikinu má því ætla að Trump verði áfram ósnertanlegur af afleiðingum vafasamra gjörða og orða sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert