Segir þagnargreiðslurnar ekki ólöglegar

Donald Trump segir að greiðslurnar hafi komið frá honum sjálfum …
Donald Trump segir að greiðslurnar hafi komið frá honum sjálfum en ekki úr kosningasjóðnum. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að þagnargreiðslurnar sem Micheal Cohen, fyrrverandi lögfræðingur forsetans, framkvæmdi til að tryggja þögn um meint ástarsambönd milli forsetans og tveggja kvenna, brjóti ekki gegn lögum um fjármögnun kosningabaráttu.

Micheal Cohen játaði í gær að hafa brotið gegn lögum um fjármögnun kosningabaráttu með því að hafa innt greiðslurnar af hendi. Hann viðurkenndi einnig að hafa gerst sekur um skattsvik.

Ekki brot á lögum

„Þetta er ekki einu sinni brot á kosningalögum,“ sagði Donald Trump í viðtali í fréttaþættinum „Fox & friends“ um greiðslurnar.

„Þær komu ekki úr kosningasjóðnum, þær komu frá mér og ég tísti um það,“ bætti hann við.

Micheal Cohen lýsti því fyrir rétti í gær hvernig hann framkvæmdi greiðslurnar að fyrirskipan Trump. Forsetinn neitaði því fyrst um sinn að hafa vitað af greiðslunum. Lögmannateymi hans hefur síðan dregið þá fullyrðingu tilbaka og sagt að forsetinn búi einungis yfir almennri vitneskju um málið.

„Ég frétti af þeim síðar,“ sagði Trump í viðtalinu.

Rifjaði upp kosningalagabrot Obama

Forsetinn gerði einnig að umfjöllunarefni kosningalagabrot Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, frá árinu 2008.

„Ef þú horfir á Obama, hann braut gróflega gegn kosningalögum. En þá var annar dómsmálaráðherra sem horfði öðruvísi á málið,“ sagði Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert