58% dæmdra fyrir nauðgun erlendir

58% dæmdra fyrir nauðgun í Svíþjóð síðustu fimm ár eru …
58% dæmdra fyrir nauðgun í Svíþjóð síðustu fimm ár eru fæddir utan Svíþjóðar og um helmingur dæmdra eru fæddir utan Evrópu. Ljósmynd/Unif

Af þeim 843 sem hafa hlotið dóm í Svíþjóð fyrir nauðgun á árunum 2012 til 2017 eru 427, eða 58%, fæddir utan Svíþjóðar, helmingur utan Evrópu og um 40% þeirra utan Evrópu eru fæddir í Mið-Austurlöndum.

Hlutfall þeirra sem eru fæddir erlendis hækkar til muna ef litið er til grófs kynferðisofbeldis (s. överfallsvåldtekt) og er í þeim tilfellum eru 85% dæmdra fæddir erlendis. Þetta kemur fram í rannsókn fréttaskýringarþáttar sænska ríkisútvarpsins, SVT, Uppdrag granskning.

Gerendurnir hafa oft verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna þegar brotin eru framin. Þá er einnig áberandi að menntunarstig afbrotamanna er almennt lág og hefur þriðjungur gerenda einnig hlotið dóma fyrir önnur brot.

Afganir vekja athygli

Þegar uppruni þeirra 843 dæmdra er skoðaður kemur í ljós að 197 eru fæddir í Mið-Austurlöndum eða Norður-Afríku, 134 sunnan Sahara og 96 fæddir á öðrum svæðum utan Evrópu.

Þá segir eftirtektarvert að 45 þeirra dæmdu eru ungir menn frá Afganistan. Þrátt fyrir að það sé mjög lítið hlutfall þeirra Afgana sem búa í Svíþjóð, en meðal þeirra afbrotamanna sem hafa tvöfalt ríkisfang er sá afganski algengastur.

„Maður tekur með sér mismunandi nálgun til lífsins. Það eru til staðar ákveðnar hugmyndir um kynlíf og stöðu kvenna í samfélaginu, sem maður hefur með í för [milli landa]. Þessar hugmyndir stangast á við hvernig litið er á konur og jafnrétti í Svíþjóð,“ hefur SVT eftir Mustafa Panshiri, sænskur lögreglumaður fæddur í Afganistan.

Þjóðerni skiptir máli

„Þjóðerni er áhugaverður þáttur. Félagsfræðilega er þetta ein þeirra breytna sem skiptir máli, en ekki sú eina. Það að þetta sé eina breytan sem er skoðuð er afleiðing þeirrar umræðu sem er í samfélaginu,“ segir Jerzy Sarnecki, prófessor í afbrotafræði við afbrotastofnunina Brå, við SVT.

„Þessir ungu menn sem nauðga eru oft frá löndum þar sem viðhorf gagnvart konum eru öðruvísi en í Svíþjóð, það er alveg rétt. Ég verð hins vegar að taka fram að í tilfelli margra einstaklinga sem koma hingað, koma þegar þeir eru mjög ungir og hafa varla búið í heimalöndum sínum. Margir þeirra hafa lifað á götunni í Teheran, í París, í Marseille eða í Stokkhólmi. Þeir hafa búið í grófu karllægu umhverfi þar sem þeir aðeins umgangast aðra karlmenn. Þessir einstaklingar hafa þurft að búa við mjög erfiðar aðstæður og hafa oft aðeins getað framfleytt sér með því að fremja lögbrot,“ segir hann.

Samkvæmt Sarnecki er mjög erfitt að meta hvort fátækt eða uppruni hafi meira að segja um brotaferil þessa einstaklinga.

Árið 2016 voru 142 dæmdir fyrir nauðgun í Svíþjóð, en á sama ári tók sænska lögreglan við 6.715 kærum. Samkvæmt könnun afbrotastofnunarinnar Brå, gerð árið 2016, eru talin fram 190 þúsund kynferðisbrot.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka