„Allar aftökur eru skelfilegar en að fara fram á dauðarefsingu yfir aðgerðasinna eins og Israa al-Ghomgham, sem er ekki einu sinni sökuð um ofbeldisfulla hegðun, er ómennska.“
Þessi orð er að finna í yfirlýsingu sem Sarah Leah Whitson, framkvæmdastjóri Mannréttindavaktarinnar í Mið-Austurlöndum, sendi frá sér í vikunni, en samtökin mótmæla harðlega áformum ríkissaksóknara í Sádi-Arabíu um að fara fram á dauðadóm yfir téðum aðgerðasinna sem setið hefur bak við lás og slá frá árinu 2015. Hún var þá handtekin ásamt eiginmanni sínum fyrir friðsamleg mótmæli, að sögn Mannréttindavaktarinnar, sem óttast fordæmisgildi málsins, en fjöldi kvenna situr í fangelsi í landinu fyrir þær sakir að hafa talað fyrir mannréttindum.
Mannréttindavaktinni þykir líka út úr korti af réttað sé í máli Ghomgham á vettvangi hryðjuverkadómstóls landsins.
Sömu örlög bíða eiginmanns Ghomgham, Moussa al-Hashem, og þriggja annarra karlmanna verði þeir fundnir sekir. Ekki eru heimildir fyrir því að kona hafi í annan tíma verið dæmd til dauða fyrir störf sín í þágu mannréttinda í landinu.
Að minnsta kosti þrettán manns sem barist hafa fyrir mannréttindum og auknum réttindum konum til handa hafa verið teknir höndum í Sádi-Arabíu síðan í maí, sakaðir um aðgerðir sem ógna þjóðaröryggi. Sumir hafa verið leystir úr haldi en aðrir sitja enn inni án þess að þeim hafi verið birt ákæra, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.
Mannréttindavaktin segir meint brot Ghomgham ekki refsiverð, en henni er meðal annars gefið að sök að hafa tekið þátt í mótmælum, að kyrja slagorð sem eru yfirvöldum í Sádi-Arabíu andsnúin, að reyna að hafa áhrif á skoðanir almennings og að taka upp mótmæli og sýna frá þeim á samfélagsmiðlum.
Ghomgham tilheyrir minnihluta sjíamúslíma í landinu og hefur barátta hennar fyrir réttindum þeirra í Qatif-héraði verið súnníska meirihlutanum, ekki síst stjórnvöldum, þyrnir í augum. Sjíar njóta ekki sömu réttinda og súnníar í Sádi-Arabíu og hafa ekki sömu möguleika á því að brjótast til mennta og finna sér störf við hæfi. Arabíska vorið sneiddi ekki hjá Sádi-Arabíu og gaf sjíum byr undir báða vængi. Barátta þeirra fyrir auknum réttindum hefur verið virk síðan og var Ghomgham framarlega í flokki meðan hún gat enn um frjálst höfuð strokið.
Málið þykir hafa varpað skugga á hinn unga krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, en hann hefur gefið sig út fyrir að vera „nútímalegur umbótasinni“. Hann hefur raunar fylgt þeim orðum eftir í verki; til dæmis með efnahagsumbótum, með því að opna kvikmyndahús, með því að hneppa suma af ættingjum sínum í varðhald vegna spillingar og síðast en ekki síst með því að losa um hömlur gagnvart konum, sem mega nú til dæmis eftir langa mæðu setjast undir stýri í landinu.
Á sama tíma hefur bin Salman ekki farið í grafgötur með þá sannfæringu sína að Sádi-Arabía eigi áfram að vera konungdæmi, þar sem farið verði að hans forskrift.
Hvorki bin Salman né aðrir ráðamenn í landinu hafa tjáð sig um mál Ghomgham þrátt fyrir áskoranir, meðal annars frá Mannréttindavaktinni. „Sé krónprinsinum í raun og veru alvara með umbótum ætti hann þegar í stað að láta til sín taka og tryggja að engum aðgerðasinna sé haldið að tilefnislausu fyrir störf sín í þágu mannréttinda,“ segir Sarah Lea Whitson í yfirlýsingu sinni.
Hún telur ekki ástæðu til bjartsýni. „Skýlaus valdníðsla konungdæmisins gerir almannatenglunum sem það hefur á sínum snærum stöðugt erfiðara fyrir þegar kemur að því að sannfæra bandamenn og hinn alþjóðlega viðskiptaheim um það að ævintýrið um „umbætur“ sé í raun og veru að eiga sér stað.“
Ghomgham kemur næst fyrir dóm 28. október næstkomandi.
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.