John McCain, öldungadeildarþingmaður og fyrrverandi forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, er látinn, hann var 81 árs. Hann hafði undanfarið barist við heilaæxli og var í vikunni greint frá því að hann væri hættur í krabbameinsmeðferð og að horfurnar væru ekki góðar.
New York Times hefur eftir tilkynningu frá skrifstofu McCain að hann hafi dáið á fimmta tímanum í dag að staðartíma á heimili sínu í Arizona-ríki.
McCain sat sem þingmaður bæði í öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 35 ár og var áhrifamaður í Repúblikanaflokknum. Faðir hans og afi voru báðir háttsettir yfirmenn í bandaríska hernum og hélt McCain í flugherinn. Hann var tekinn höndum í Víetnamstríðinu, en á þeim tíma var faðir hans yfirmaður herafla Bandaríkjanna á Kyrrahafi. Varð McCain þekktasti stríðsfangi stríðsins og var pyntaður og notaður í áróður.
Hann kom heim sem þjóðhetja og var talinn vera táknmynd hugrekkis þrátt fyrir að vera brotinn á líkama og sál eftir dvölina sem stríðsfangi.
Hann hélt í pólitíkina síðar og var kosinn á þing í fulltrúadeildina árið 1983 þar sem hann sat tvö tímabil. Síðar var hann kosinn sex sinnum í öldungadeildina.
McCain bauð sig fram sem forsetaefni Repúblikanaflokksins árið 2000 en tapaði á móti George W. Bush sem síðar settist í stól forseta. Árið 2008 sóttist McCain svo aftur eftir að verða forsetaefni flokksins og hlaut brautargengi. Hann tapaði hins vegar gegn Barack Obama.
McCain hefur verið einn valdamesti þingmaður Repúblikanaflokksins til að gagnrýna Donald Trump reglulega og sagði hann meðal annars vera óhæfan til að stýra Hvíta húsinu. Trump svaraði McCain til í eitt skipti og sagði að McCain væri aðeins stríðshetja af því að hann var í haldi. Sagði Trump að hann væri frekar fyrir fólk sem hefði ekki verið í haldi.