Donald Trump Bandaríkjaforseti komst að því þegar hann „googlaði“ fréttir um sjálfan sig að Google hagræddi niðurstöðum leitarinnar þannig að aðeins kæmu upp slæmar fréttir frá falsfréttamiðlum. Um þetta tjáir hann sig á Twitter.
....results on “Trump News” are from National Left-Wing Media, very dangerous. Google & others are suppressing voices of Conservatives and hiding information and news that is good. They are controlling what we can & cannot see. This is a very serious situation-will be addressed!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) 28 August 2018
Trump segir falsmiðilinn CNN sérstaklega áberandi í leitarniðurstöðum Google, og að íhaldssamari og sanngjarnari miðlum sé haldið frá. Hann spyr sig jafnframt að því hvort þetta sé yfir höfuð löglegt, og segir 96% niðurstaðna þegar leitað er að „Trump News“ koma frá vinstrisinnuðum fréttamiðlum.
„Google og aðrir bæla niður raddir íhaldsmanna og fela góðar upplýsingar og fréttir. Þeir stjórna því sem við sjáum og sjáum ekki. Þetta er mjög alvarlegt ástand – á því verður tekið,“ skrifar Trump.
Google hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem tekið er fram að leitarniðurstöðum sé ekki raðað til þess koma á framfæri stjórnmálaáróðri, heldur sé markmiðið að notendur fái upp mest viðeigandi niðurstöðurnar hverju sinni.
Jafnframt segir í yfirlýsingu Google, sem Reuters greinir frá, að fyrirtækið geri hundruð breytinga á reikniriti sínu ár hvert til að tryggja sem besta upplifun notenda. „Við röðum niðurstöðum aldrei til þess að hafa áhrif á pólitíska tilfinningu.“