Stríðsglæpir af hálfu allra aðila

Börn í Jemen eru meðal fórnarlamba ofbeldisverka sem þar eru …
Börn í Jemen eru meðal fórnarlamba ofbeldisverka sem þar eru framin nánast daglega. AFP

Allar stríðandi fylkingar í Jemen hafa jafnvel framið stríðsglæpi, segir í skýrslu rannsóknarnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni, sem er sú fyrsta sem nefndin birtir, er sjónum beint að mannskæðum loftárásum, hömlulausu kynferðislegu ofbeldi og herskráningu ungra barna.

AFP

Skýrsluhöfundar segja að allt bendi til þess að alþjóðleg mannúðarlög hafi ítrekað verið brotin af stríðandi fylkingum í Jemen. Mörg þessara brota geta talist stríðsglæpir, segir í skýrslunni sem gefin var út í dag. Þar kemur fram að vitað er hverjir margir þeirra eru sem hafa framið þessi brot.

Tæplega tíu þúsund manns hafa látist í stríðsátökunum í Jemen frá því í mars 2015 er Sádi-Arabar hófu hernað þar gegn hútum. 

Hermenn sem berjast undir stjórn Sádi-Araba.
Hermenn sem berjast undir stjórn Sádi-Araba. AFP

Saga Jemen hefur verið róstusöm síðustu áratugi. Landið var lengi tvískipt vegna kalda stríðsins og sameinaðist ekki aftur fyrr en um það leyti sem Berlínarmúrinn féll. Deilurnar hafa, líkt og í fleiri arabalöndum, einkum verið á milli trúarhópa sjía- og súnnímúslima. Barátta þeirra endurspeglar að nokkru leyti valdataflið sem nú stendur yfir á milli Írana og Sádi-Araba um ítök í arabaheiminum.

Súnnímúslimar eru í meirihluta í Jemen og flestir þeirra búa í suður- og suðausturhluta landsins. Um 35-40% íbúanna eru svonefndir Zaídar, sem tilheyra sjíafylkingunni innan íslams, og flestir þeirra búa í norður- og norðvesturhluta landsins. Vopnuð samtök Zaída hafa verið kölluð hútar og eru kennd við stofnanda sinn, klerkinn Hussein al-Houthi. Hútar hófu uppreisn árið 2004 gegn ríkisstjórn landsins sem var aðallega skipuð súnnímúslimum. Uppreisnarmennirnir beittu skæruhernaði með hléum þar til borgarastríð blossaði upp fyrir rúmum tveimur árum.

Hútar hafa notið stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran. Þeir leystu þing Jemen upp og stofnuðu byltingarráð í byrjun ársins 2015. Forseti landsins, Mansur Hadi, flúði frá höfuðborginni Sanaa til hafnarborgarinnar Aden og óskaði eftir aðstoð stjórnvalda í Sádi-Arabíu. Þau hófu hernað gegn uppreisnarmönnunum með stuðningi fleiri arabalanda þar sem súnnímúslimar eru í meirihluta.

Hafnarborgin Mukalla.
Hafnarborgin Mukalla. AFP

Skýrslan er unnin af sérfræðingum á vegum Sameinuðu þjóðanna (Group of Independent Eminent International and Regional Experts) sem mannréttindaráð SÞ kallaði saman í september.

Kamel Jendoubi, sem stýrði starfi rannsóknarnefndarinnar, segir að fátt bendi til þess að eitthvað hafi verið gert til þess að lágmarka manntjón af völdum átakanna.

Loftárásir Sádi-Araba og bandamanna þeirra hafa valdið mestu manntjóni og er bent á það í skýrslunni að flestar þeirra hafi verið á íbúðabyggð, markaði, jarðarfarir, brúðkaup, fangelsi og sjúkrahús. Verulega efasemdir eru settar fram í skýrslunni með hvað liggi að baki árásunum og vali á skotmörkum. Í mörgum tilvikum eru hernaðarlega mikilvæg skotmörk hvergi nálægt þeim stöðum sem loftárásirnar eru gerðar.

Skýrslan nær yfir tímabilið september 2014 til júní 2018 og er því ekki fjallað um nýlegar árásir sem hafa beinst gegn börnum sem búsett eru á svæðum sem eru undir stjórn uppreisnarmanna. 

Þar er aftur á móti fjallað um upplýsingar um barnahernað af hálfu bæði hersveita undir stjórn Sádi-Araba og hersveita Húta. Í flestum tilvikum eru barnahermennirnir á aldrinum 11 til 17 ára en upplýsingar eru um að börn allt niður í átta ára séu tilneydd til þess að taka þátt í stríðsátökum.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert