Trump fordæmir bók Woodwards sem blekkingu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fordæmt bók Bob Woodward um …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fordæmt bók Bob Woodward um forsetatíð sína og segir hana „blekkja almenning“. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur farið hamförum á Twitter frá því í gær vegna bókar bandaríska rannsóknarblaðamannsins og rithöfundarins Bobs Woodwards um veru Trumps í Hvíta húsinu. Hefur Trump fordæmt bókina og sagt hana „blekkja almenning“ að því er BBC greinir frá.

Bókin nefnist Fear og hefur enn ekki formlega verið gefin út, en Washingt­on Post hef­ur hana und­ir hönd­um og hef­ur unnið upp úr henni frétt­ir.

Þar er Trump sagður með of­sókn­aræði á svo háu stigi vegna Rússarann­sókn­ar­inn­ar sem nú stend­ur yfir að hann eigi erfitt með að sinna starfi sínu.

Starfs­manna­stjóri Hvíta húss­ins, John Kelly, hefur þegar brugðist við lýsingum um sig í bókinni, en þar er Kelly sagður hafa orðið svo hneykslaður og reiður á hegðun Trumps að hann hafi kallað hann „hálf­vita“ í sam­töl­um við annað starfs­fólk og kvartað yfir að vera staddur á „vit­leys­inga­hæli“.

Segir Kelly þetta vera „lygar“ og að bókin sé „lágkúruleg“.

Lygar til að blekkja almenning

Í bókinni eru hátt­sett­ir emb­ætt­is­menn sagðir leggja á ráðin sín á milli til að koma í veg fyr­ir að for­set­inn fram­kvæmi ein­hverja vit­leysu. Þeir fjar­lægi jafn­vel skjöl til að koma í veg fyr­ir að Trump fái ákveðnar upp­lýs­ing­ar eða geti sent þær frá sér. Þá er vitnað í að þeir hafi kallað forsetann „bjána“ og „lygara“. Þá sé starfs­fólk Hvíta húss­ins á barmi tauga­áfalls vegna hegðunar forsetans.

Trump hefur sent frá sér fjölda twitterskilaboða um bókina, bæði sínar eigin skoðanir á henni sem og yfirlýsingar varnarmálaráðherrans Jims Mattis, starfsmannastjórans Kellys og Söruh Huckabee Sanders, talsmanns Hvíta hússins.

Segir Trump tilvitnanir í Mattis, sem m.a. á að hafa sagt skilning forsetans vera á við 10 ára barn, og Kelly vera „tilbúnar lygar til að blekkja almenning. Það sama gildi um aðrar frásagnir og tilvitnanir“.

Sannleiksgildi bókarinnar hafi þegar verið dregið í efa með „svo mörgum lygum og tilbúnum heimildum“. Hafnaði Trump því alfarið að hann hefði sjálfur notað lýsingarnar „andlega skertur“ og heimskur suðurríkjamaður“ til að lýsa dómsmálaráðherranum Jeff Sessions.

Heyrðust aldrei í minni nærveru

Í yfirlýsingu sinni segir Mattis bókina vera „afurð einhvers með ríkulegt ímyndunarafl“. „Þessi fyrirlitlegu orð um forsetann sem Woodward eignar mér voru aldrei notuð af mér eða heyrðust í minni nærveru.“

Kelly segir í yfirlýsingu sinni að „sú hugmynd að ég hafi kallað forsetann bjána er ekki rétt. Hann veit alltaf hvar ég stend og við vitum báðir að þessi saga er algjört bull. Þetta er ömurleg tilraun til að ata auri þá sem næst standa forsetanum“.

Segir aðra slæma bók skipta engu

Washington Post hefur undir höndum símtal Trumps við Woodward frá því í ágúst þar sem hann hefur orð á því að Woodward hafi ekki haft samband við sig vegna viðtalsbeiðni eða látið sig vita af bókinni.

„Ég held að þú hafir alltaf verið sanngjarn,“ sagði Trump við Woodward við þetta tækifæri. Woodward svarar því til að hann hafi fengið mikla innsýn og upplýsingar og að bókin taki hart á heimi Trumps og stjórn hans.

„Ég gef mér að það þýði að þetta verði neikvæð bók,“ svaraði Trump. Þannig að það er önnur vond bók að koma út. Eins og það skipti einhverju máli.“

Því svaraði Woodward til: „Ég hef trú á þjóð okkar og af því að þú ert forsetinn okkar þá óska ég þér alls hins besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert