Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ræðst að íþróttavörurisanum Nike vegna stuðnings fyrirtækisins við Colin Kaepernick, fyrrverandi leikmann ruðningsliðsins San Francisco 49ers, en hann er andlit nýrrar auglýsingaherferðar Nike. AFP-fréttastofan greinir frá.
Fyrsta sjónvarpsauglýsing herferðarinnar var frumsýnd í dag og nýtti forsetinn tækifærið til að hnýta í íþróttavörurisann. „Eins og áhorfið á leiki NFL-deildarinnar hefur hrunið, þá er Nike að fá það óþvegið með reiði og sniðgöngu,“ skrifaði Trump á Twitter. Hann hafði áður lýst því yfir að samningur Nike við Kaepernick væri „hræðilegur“.
Kaepernick olli miklu pólitísku fjaðrafoki eftir að hann kraup á meðan þjóðsöngurinn var leikinn en neitaði að standa með hendur á brjósti, líkt og hefð er fyrir, til að mótmæla kynþáttamisrétti. Hann hefur ekki leikið í NFL-deildinni síðan snemma á síðasta ári.
„Ég velti því fyrir mér hvort það hafi ekki hvarflað að þeim að þetta færi svona. Á meðan NFL sýnir hluttekningu get ég ekki horft og mun ekki geta það fyrr en virðing er borin fyrir fánanum,“ skrifaði Trump jafnframt. Þegar Kaepernick og fleiri leikmenn krupu við þjóðsönginn á sínum tíma kallaði forsetinn þá „tíkarsyni“ og sagði að það ætti að reka þá.
Þegar Nike kynnti Kaepernick sem andlit herferðar sinnar vakti það mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum og fékk ákvörðunin gagnrýni frá ákveðnum hópi sem sagðist ætla að sniðganga vörur fyrirtækisins. Þá birtust myndbönd þar sem fólk brenndi Nike-vörur í mótmælaskyni.
Herferðin ber yfirskriftina „Believe in something. Even if it means sacrificing everything“. Á íslensku mætti þýða það sem: „Trúið á eitthvað. Jafnvel þótt það þýði að þið þurfið að fórna öllu.“ Slagorðið er einkar viðeigandi fyrir Kaepernick, enda hefur hann ekki leikið leik í NFL-deildinni síðan snemma á síðasta ári. Hann fór í mál við eigendur liða í deildinni því hann taldi þá hafa ákveðið að ráða hann ekki til sín vegna mótmæla sinna gegn kynþáttafordómum.
Nike hefur hins vegar haft leikmanninn á launaskrá þrátt fyrir að hann hafi ekki verið að spila, en hann skrifaði upphaflega undir styrktarsamning við fyrirtækið árið 2011.
„Við teljum að Colin sé einn af þeim íþróttamönnum sinnar kynslóðar sem hafi veitt öðrum hvað mestan innblástur; notað mikilvægi íþróttarinnar til að hjálpa heiminum fram veginn,“ sagði Gino Fisanotti, varaforseti Nike í Norður-Ameríku.