Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hafnar alfarið vangaveltum um að hann sé höfundur greinar sem birtist í bandaríska dagblaðinu New York Times þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er harðlega gagnrýndur og því haldið fram að embættismenn ríkisstjórnar hans vinni að því að grafa undan honum vegna ótta við það hversu „óútreiknanlegur“ og „siðlaus“ hann sé.
Miklar vangaveltur eru nú uppi um hver óþekkti embættismaðurinn sé og hefur Pence hafnað því að það sé hann, að því er BBC greinir frá.
Trump hefur lýst greinarhöfundinum sem „huglausum“ og New York Times sem „fölsku“.
„Varaforsetinn skrifar sínar greinar undir nafni,“ sagði Jarrod Agen, samskiptastjóri Pence, á Twitter. New York Times ætti að „skammast sín og sömuleiðis einstaklingurinn sem skrifaði ranga, órökrétta og huglausa grein“. Hvíta húsið sé yfir það hafið að grípa til slíkra viðvaningsgjörða.
The Vice President puts his name on his Op-Eds. The @nytimes should be ashamed and so should the person who wrote the false, illogical, and gutless op-ed. Our office is above such amateur acts.
— Jarrod Agen (@VPComDir) September 6, 2018
Vangaveltur um að Pence sé höfundur greinarinnar byggjast einkum á notkun orðsins leiðarstjarna en varaforsetinn notar það orð gjarnan. Í greininni er vísað til öldungadeildarþingmannsins heitins Johns McCains sem leiðarstjörnu við að endurreisa virðingu hins opinbera og samtal við þjóðina.