Kné fylgir kviði

Auglýsingamyndin umdeilda af Colin Kaepernick á þaki Nike-verslunarinnar í San …
Auglýsingamyndin umdeilda af Colin Kaepernick á þaki Nike-verslunarinnar í San Francisco. Leikmaðurinn var síðast á mála hjá ruðningsliði borgarinnar, 49ers, en hefur verið án liðs í meira en ár vegna umdeildra mótmæla sinna. AFP

Menn keppast nú við að hæla íþróttavöruframleiðandanum Nike á hvert reipi eða níða af honum skóinn fyrir að gera ruðningskappann Colin Kaepernick að andliti nýjustu auglýsingaherferðar sinnar. Föðurlandssvik eða framsýni? 

Það er ekki á hverjum degi sem forseti Bandaríkjanna hefur sterka skoðun á auglýsingaherferð íþróttavöruframleiðanda en það gerðist, svo eftir var tekið, í vikunni. Donald Trump fann Nike allt til foráttu eftir að fyrirtækið ákvað að nota ruðningskappann umdeilda Colin Kaepernick sem andlit nýjustu Just Do It-herferðar sinnar. „Nike hefur fengið að finna til tevatnsins, reiði og sniðganga. Ætli þeir hafi átt von á því?“ tísti forsetinn og vísaði til óánægju viðskiptavina með valið á Kaepernick en myndir hafa birst á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum af fólki að brenna Nike-vörunar sínar. Fréttir eru uppfullar af viðtölum við fólk sem ætlar að rjúfa tryggð við Nike og snúa sér að öðru merki – en einnig þveröfugt. Sumir taka nú strauið í átt að Nike. Hvort það jafnast út á endanum eða verður Nike í hag eða óhag mun sjálfsagt ekki liggja fyrir fyrr en fyrirtækið birtir næsta ársreikning sinn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Óhætt er að segja að Nike hafi tekið mikla áhættu en viðbrögðin úr Hvíta húsinu voru fyrirsjáanleg. Sjaldgæft er að fyrirtæki beiti sér með svona afgerandi hætti í viðkvæmri og hápólitískri deilu. Trump hefur átt í stríði við leikmenn í NFL-deildinni eftir að þeir byrjuðu að krjúpa á kné undir bandaríska þjóðsöngnum á leikjum til að mótmæla lögregluofbeldi og almennri mismunun sem þeir segja svarta þegna sæta vestra. Téður Kaepernick var brautryðjandi í þeim gjörningi og hefur verið milli tannanna á fólki allar götur síðan. Svo umdeildur er hann að ekkert félag hefur treyst sér til að ráða hann til starfa eftir að hann yfirgaf San Francisco 49ers í mars á síðasta ár og hefur Kaepernick raunar höfðað mál á hendur liðunum í NFL fyrir að sammælast um að sniðganga sig.

Í þessu ljósi er slagorð Nike í herferðinni viðeigandi: „Trúðu á eitthvað. Jafnvel þótt það þýði að þú þurfir að fórna öllu.“

Líkt við Ali og Parks

Hjá Nike eru menn vissir í sinni sök. „Það er okkar trú að Colin sé einn áhrifamesti íþróttamaður sinnar kynslóðar en hann hefur notað kraftinn sem býr í íþróttunum til að stuðla að framförum í þessum heimi,“ segir Gino Fisanotti, varaforseti markaðsmála hjá Nike í Norður-Ameríku, í samtali við sjónvarpsstöðina ESPN.

Fleiri hafa tekið í sama streng. Osi Umenyiora, sem varð tvöfaldur NFL-meistari á löngum ferli í deildinni, nefndi Kaepernick í sömu andrá og hnefaleikakappann Muhammed Ali og sjálfa „móður frelsishreyfingarinnar“ Rosu Parks í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, í vikunni. „Ég held að þeir sem eru þessu andvígir í dag eigi eftir að iðrast þess í framtíðinni. Þegar fram líða stundir verður litið á Colin Kaepernick sem mjög sérstakan íþróttamann; mann sem stóð með sannfæringu sinni. Þess vegna á Nike á endanum eftir að hafa hag af þessu. Við berum virðingu fyrir embætti forseta Bandaríkjanna en ég veit ekki alveg á hvaða vegferð hann er,“ sagði Umenyiora.

Í yfirlýsingu frá NFL-deildinni kemur fram að hún virði hlutverk og skyldur allra sem eiga að henni aðild til að reyna að stuðla að þörfum og jákvæðum breytingum á samfélaginu.
Blaðamaðurinn Khaled A. Beydoun gefur ekki mikið fyrir þá afstöðu í fréttaskýringu í breska blaðinu The Guardian og undirstrikar að val Nike sé engin tilviljun. „Nike ber kennsl á sigurvegara þegar það sér hann. Sigurvegara sem mun ekki bara skila sínu þegar kemur að sölu á skóm og fatnaði, heldur er líka holdgervingur íþróttagreinar á krossgötum. Með þessari nýju auglýsingu, er Kaepernick meira en bara andlit Nike. Hann er áfram andlit deildarinnar sem setti hann á svartan lista. Hann minnir okkur líka með afgerandi hætti á það hversu hörð og ósanngjörn stefna NFL gagnvart leikmönnum er, einkum og sér í lagi þeim svörtu, þegar þeir nota aðstöðu sína til að mótmæla því alltumlykjandi óréttlæti sem þrúgar samfélag þeldökkra.“

Auðvitað má alltaf velta fyrir sér hvort komi á undan markaðshagsmunir eða þjóðfélagsvitund, þegar fyrirtæki leggur á brattann með þessum hætti. „Það er alltaf markaðsvinkill,“ segir dr. Robin Carey, markaðssérfræðingur við háskólann í Lancashire. „En það þýðir ekki að fyrirtækið geti ekki vakið fólk til vitundar í leiðinni.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert