Donald Trump Bandaríkjaforseti olli yfirmönnum í Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytinu, verulegum ótta með Twitter-skilaboðum sem hann sendi næstum því. Skilaboðin hefðu, að því er fram kemur í væntanlegri bók rannsóknarblaðamannsins Bob Woodward, verið túlkuð af ráðamönnum í Norður-Kóreu sem merki um yfirvofandi árás.
Í bók Woodward, sem nefnist Fear og kemur í bókaverslanir á morgun, eru háttsettir embættismenn sagðir leggja á ráðin sín á milli til að koma í veg fyrir að forsetinn framkvæmi einhverja vitleysu og Trump er sagður vera með ofsóknaræði á svo háu stigi vegna Rússarannsóknarinnar sem nú stendur yfir að hann eigi erfitt með að sinna starfi sínu.
Í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina lýsti Woodard atviki sem hann segir eitt það hættulegasta í kjarnorkudeilunni við Norður Kóreu.
„Hann gerði drög að Twitter skilaboðum þar sem stóð: „Við ætlum að kalla til baka frá Suður-Kóreu, alla fjölskyldumeðlimi þeirra 28.000 sem þar eru,“ sagði Woodward og vísaði þar til bandaríska varnarliðsins og fjölskyldna þeirra á Kóreuskaga.
Twitter-færslan var hins vegar aldrei birt vegna athugasemda sem bárust eftir bakleiðum um að Norður-Kóreumenn myndu skila skilaboðin á þann veg að Bandaríkin væru að undirbúa árás.
„Á þeim tíma vaknaði verulegur ótti innan Pentagon um að: „Guð minn góður, ein Twitter-skilaboð, sem við höfum traustar upplýsingar um að Norður-Kóreumenn muni túlka sem yfirvofandi árás,““ sagði Woodward.
Verulega hefur dregið úr spennu milli ríkjanna eftir leiðtogafund þeirra Trumps og Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í Singapore í júní. Þannig lét Kim nýlega í ljós „staðfesta trú“ sína á Trump og forsetinn lofaði í gær hersýningu Norður-Kóreu fyrir að þar voru engin kjarnorkuvopn.
„Almenningur þarf að fara að vakna og átta sig á hvað er að gerast á forsetaskrifstofunni,“ sagði Woodward.