„Forseti hinna ríku“ ræðst gegn fátækt

Emmanuel Macron ætlar að berjast gegn fátækt.
Emmanuel Macron ætlar að berjast gegn fátækt. AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur sagst ætla að skera upp herör gegn fátækt en í fátækustu bæjum Frakklands nýtur hann lítilla vinsælda og er bankamaðurinn fyrrverandi þar kallaður „forseti hinna ríku“.

Suður af höfuðborginni París er að finna bæinn Grigny. Þar er fátækt viðvarandi vandamál í því landi Evrópu sem greiðir hlutfallslega hæstar félagslegar bætur til íbúanna. Í Grigny búa margir innflytjendur, aðallega frá Vestur-Afríku. Tæplega 45% bæjarbúanna 30 þúsund eru með tekjur undir fátæktarmörkum og þurfa því að lifa af innan við 1.000 evrum, um 130 þúsund krónum, á mánuði. Atvinnuleysi er útbreitt og flestir unglingar hætta framhaldsnámi án þess að taka lokapróf. 

Stærstu fjölbýlishús Evrópu

Í fyrra kviknaði í fjölbýlishúsi í bænum en í því bjuggu um 17 þúsund manns. Byggingin er eitt stærsta fjölbýlishús Evrópu. Við eldsvoðann kom sú staðreynd bersýnilega í ljós að í húsinu bjuggu jafnvel um áttatíu manns samanlagt í sex litlum íbúðum. 

Félagslegu vandamálin eru mörg. Við annað fjölbýlishús kom til átaka milli íbúa og lögreglu árið 2016 er æstur hópur ungmenna kastaði bensínsprengjum að lögreglubílum. Tveir lögreglumenn hlutu alvarleg brunasár. 

Grigny er í um 25 kílómetra fjarlægð frá miðborg Parísar og þangað fara fáir án þess að eiga ríkt erindi.

En það er fyrst og fremst í niðurníðslu og grámyglulegt. Kaffihús eru fá og sömuleiðis matvöruverslanir. Eina verslunin sem er í blóma í verslunarmiðstöðinni er sú sem stundar peningamillifærslur. Þangað þyrpast innflytjendur til að senda peninga til heimalanda sinna. 

Flóttamenn bíða í röðum eftir að skrá sig í frönsku …
Flóttamenn bíða í röðum eftir að skrá sig í frönsku borginni Nantes. AFP

Bæir eins og þessir verða væntanlega ofarlega í huga Macrons er hann ýtir áætlunum sínum gegn fátækt úr vör síðar í vikunni. Macron ætlar sér að fækka í þeim hópi Frakka sem eru með tekjur undir fátæktarmörkum en þeim hefur fjölgað úr einni milljón í níu milljónir frá fjármálahruninu fyrir áratug.

Macron segist vera miðjumaður en hefur verið gagnrýndur fyrir að aðgerðir hans, nú sextán mánuðum eftir að hann varð forseti, hafi ekki bætt kjör fátækra. Hins vegar hafi hann lækkað skatta á ríkustu þjóðfélagshópana. 

Ójafnrétti til tækifæra

Félagsleg útgjöld franska ríkisins námu 57 milljörðum evra árið 2016 og hefur Macron sagst óhress með „brjálæðislega“ háar upphæðir sem fara til félagslegra bóta án þess að árangurinn sé nægilegur. Segir hann „ójafnrétti til tækifæra“ um að kenna.

„Örlög þín ráðast oft af því hvar þú ert fæddur,“ sagði hann á þinginu í júlí.

Áætlun hans gerir ráð fyrir margvíslegum úrræðum sem m.a. miða að því að grípa snemma inn í aðstæður fólks. Þannig vill hann bjóða fátækum börnum ókeypis skólamáltíðir svo dæmi sé tekið.

Bæjarstjóri Grigny, kommúnistinn Philippe Rio, segist sammála því að börnin í bænum þurfi alla þá hjálp sem þau geta fengið. Aðeins fjórðungur framhaldsskólanema í bænum lýkur prófum og hefur háskólanám sem er langt undir meðaltali í Frakklandi. 

Félagsleg aðskilnaðarstefna

Rio skrifaði Macron bréf eftir að hann var kosinn forseti á síðasta ári. Bað hann forsetann um fjárhagsaðstoð og sagði bæjarbúa fórnarlömb „félagslegrar aðskilnaðarstefnu“.

Nokkrum mánuðum síðar fóru um 150 bæjarstjórar að fordæmi Grigny og fordæmdu niðurskurð í fjárveitingum til borga og bæja til að sinna félagsmálum.

Rio hefur efasemdir um að áætlanir Macrons nú muni bæta kjör fátækra. Bæjarbúar voru fylgjandi Macron í annarri umferð forsetakosninganna, aðallega vegna þess að þeir vildu frekar sjá hann á forsetastóli en andstæðing hans, Marine Le Pen. En nú finnst þeim þeir sviknir.

Innflytjendur búa í þeim borgarhverfum Parísar þar sem húsnæði er …
Innflytjendur búa í þeim borgarhverfum Parísar þar sem húsnæði er ódýrt. Þannig verða hverfin einsleit og vandamál hlaðast upp. AFP

„Um tíma var ég mjög fylgjandi Macron. Ég kaus einhvern ungan og kraftmikinn sem lofaði ákveðnum hlutum og lét mann langa til að gera eitthvað,“ segir Odile Kitenge, móðir tveggja barna. Hún starfar hjá samtökum sem aðstoða konur í atvinnuleit. Nú finnst henni eins og ríkisstjórnin hafi yfirgefið Grigny.

Kitenge er fædd í Frakklandi en foreldrar hennar fluttu þangað frá Kongó. Móðir hennar vinnur við ræstingar og faðir hennar er öryggisvörður. Hún hætti snemma í skóla og fór að stunda smáglæpi áður en hún komst aftur á beinu brautina og lauk námi. Hún segir mestu skipta að efla atvinnutækifæri handa íbúunum. 

Frönskukennarinn Juliette Perchais telur að mikilla og róttækra breytinga sé þörf til að efla samfélagið. Á síðasta ári safnaði hún peningum til að fara víða um heim til að kynna sér ólíkar kennsluaðferðir. Hún heimsótti m.a. Svíþjóð og Indland í þeirri heimsreisu.

Hún segist hafa snúið til baka með fullt af nýjum hugmyndum og segist hafa áttað sig vel á því að kennarar í Frakklandi eigi erfitt með að ná til barna sem koma frá fátækum heimilum. Hún segir að margir foreldrarnir tali varla frönsku og geti því vart aðstoðað börnin sín með heimavinnuna.

Hún telur kennaramenntunina ekki nægilega góða að þessu leyti. Þá telur hún skipulag Grigny, sem er í raun eitt af borgarhverfum Parísar, til þess fallið að skapa aðstæður fyrir fátæktarhverfi innflytjenda. 

Þar eru gríðarstór fjölbýlishús, ódýrt húsnæði sem er það eina sem fátækir hafa efni á. „Það er ekki réttlátt að í okkar skóla séu aðeins nemendur með sama bakgrunn og sömu félagslegu stöðu,“ segir hún. „Það er eins og við höfum verið læst úti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert