Afneitar fjölda látinna í Púertó Ríkó

Trump á fundi með ríkisstjóra Púertó Ríkó í kjölfar hamfaranna …
Trump á fundi með ríkisstjóra Púertó Ríkó í kjölfar hamfaranna á síðasta ári. AFP

Í nýjustu tístum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta ásakar hann demókrata um að hafa látið hann líta illa út með því að láta gera skýrslur þess efnis að hátt í 3.000 hefðu látið lífið þegar fellibylurinn María reið yfir Púertó Ríkó fyrir tæpu ári.

„Þegar ég yfirgaf eyjuna, EFTIR að stormurinn hafði gengið yfir, var tala látinna á milli 6 og 18,“ segir Trump á Twitter-síðu sinni, og að tala látinna hafi ekki hækkað mikið eftir það. „Síðan löngu seinna fóru þeir að greina frá mjög háum tölum, 3.000…“

„… Þetta gerðu demókratar til að láta mig líta eins illa út og þeir gætu á meðan mér tókst að safna milljörðum dollara til að hjálpa til við að endurbyggja Púertó Ríkó. Ef manneskja lést af einhverjum ástæðum, eins og vegna aldurs, bætið þeim bara á listann. Slæm pólitík. Ég elska Púertó Ríkó!“

Ljóst er að Trump er í mikilli afneitun vegna málsins, en hann hefur verið harðlega gangrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla á dögunum þegar hann var í viðtali vegna fellibylsins Flórens sem nú er við austurströnd Bandaríkjanna.

María, sagði Trump „var lang­sam­lega það erfiðasta sem við höf­um sinnt, af því að þetta var eyja. Ég tel þó að viðbragðið hafi verið eitt það besta til þessa með til­liti til þess um hvað þetta snýst.“

Bandaríska almannavarnastofnunin gaf út skýrslu í júlí þar sem viðurkennt var að ekki hefði verið rétt brugðist við eftir að María reið yfir Púertó Ríkó. Þá var það fyrst nú í ág­úst að raf­magn komst að fullu á alls staðar á Pú­er­tó Ríkó, 11 mánuðum eft­ir að María fór þar yfir. Í ný­legri skýrslu kem­ur fram að 8% íbúa hafi yf­ir­gefið eyj­una og að marg­ir hafi lát­ist af völd­um lé­legr­ar heil­brigðisþjón­ustu og skorts á ann­arri aðstoð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert