Í nýjustu tístum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta ásakar hann demókrata um að hafa látið hann líta illa út með því að láta gera skýrslur þess efnis að hátt í 3.000 hefðu látið lífið þegar fellibylurinn María reið yfir Púertó Ríkó fyrir tæpu ári.
„Þegar ég yfirgaf eyjuna, EFTIR að stormurinn hafði gengið yfir, var tala látinna á milli 6 og 18,“ segir Trump á Twitter-síðu sinni, og að tala látinna hafi ekki hækkað mikið eftir það. „Síðan löngu seinna fóru þeir að greina frá mjög háum tölum, 3.000…“
„… Þetta gerðu demókratar til að láta mig líta eins illa út og þeir gætu á meðan mér tókst að safna milljörðum dollara til að hjálpa til við að endurbyggja Púertó Ríkó. Ef manneskja lést af einhverjum ástæðum, eins og vegna aldurs, bætið þeim bara á listann. Slæm pólitík. Ég elska Púertó Ríkó!“
3000 people did not die in the two hurricanes that hit Puerto Rico. When I left the Island, AFTER the storm had hit, they had anywhere from 6 to 18 deaths. As time went by it did not go up by much. Then, a long time later, they started to report really large numbers, like 3000...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 13, 2018
.....This was done by the Democrats in order to make me look as bad as possible when I was successfully raising Billions of Dollars to help rebuild Puerto Rico. If a person died for any reason, like old age, just add them onto the list. Bad politics. I love Puerto Rico!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 13, 2018
Ljóst er að Trump er í mikilli afneitun vegna málsins, en hann hefur verið harðlega gangrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla á dögunum þegar hann var í viðtali vegna fellibylsins Flórens sem nú er við austurströnd Bandaríkjanna.
María, sagði Trump „var langsamlega það erfiðasta sem við höfum sinnt, af því að þetta var eyja. Ég tel þó að viðbragðið hafi verið eitt það besta til þessa með tilliti til þess um hvað þetta snýst.“
Bandaríska almannavarnastofnunin gaf út skýrslu í júlí þar sem viðurkennt var að ekki hefði verið rétt brugðist við eftir að María reið yfir Púertó Ríkó. Þá var það fyrst nú í ágúst að rafmagn komst að fullu á alls staðar á Púertó Ríkó, 11 mánuðum eftir að María fór þar yfir. Í nýlegri skýrslu kemur fram að 8% íbúa hafi yfirgefið eyjuna og að margir hafi látist af völdum lélegrar heilbrigðisþjónustu og skorts á annarri aðstoð.