Verslanir í London hafa gerst sekar um að selja hnífa, áfengi og tóbak til barna allt niður í 13 ára gömul. Fréttavefur BBC greinir frá.
Viðskiptaeftirlitið í London kannaði málið og fékk sjálfboðaliða til að kaupa hnífa og áfengi til að rannsaka algengi þess að hlutirnir séu seldir börnum. Stofnunin hafði eftirlit með 2.500 sölum en í 285 af þeim var varningur seldur börnum ólöglega.
Um 14% verslananna höfðu selt hnífa og 12% seldu áfengi. Lögreglan í London sagði ástandið óviðunandi. Síðan í janúar hafa 64 látist vegna hnífaárása í London.
Sophie Linden, staðgengill lögreglustjórans í London, sagði í samtali við BBC: „Eina leiðin til að losna við hættuna á götunni sem stafar af þessum vopnum er að taka höndum saman í að koma í veg fyrir að þau lendi í greipum ungra íbúa London.“
Starfsmenn smásöluverslananna gætu þá átt fyrir höfði sér sex mánaða fangelsi eða allt að 5.000 punda sekt fyrir að selja börnum hnífa.
Stór íþróttavöruverslun í Wandsworth í suðurhluta London var sektuð um 20.000 pund eftir að hafa selt hníf til aðila undir lögaldri. Þegar sjálfboðaliði í verkefninu, 16 ára stúlka, keypti hnífinn í versluninni Decathlon LTD talaði hún við tvo sölufulltrúa.
Hvorugur starfsmannanna spurði hana um aldur og var því auðvelt fyrir hana að kaupa hnífinn. Talsmenn verslunarinnar sögðu að hnífar hefðu verið fjarlægðir af jarðhæðinni og að starfsmenn hefðui fengið frekari þjálfun í að selja slíka muni.
Nýjustu tölur lögreglunnar í London sýna 12% aukningu hnífaárása seinustu 12 mánuði. Á þessu ári hafa 8.704 hnífaárásir átt sér stað samkvæmt bókum lögreglunnar. LTS hefur unnið náið með lögreglunni að aðgerðum til að fækka hnífaárásum.