Rússneski gagnnjósnarinn Sergei V. Skripal var smáseiði. Þannig lýsa bresk yfirvöld Skripal, sem þau fengu til liðs við sig á tíunda áratug síðustu aldar. Rússnesk yfirvöld virtust líta Skripal sömu augum er þau veittu honum frekar mildan dóm fyrir svik sín og létu hann síðan af hendi í fangaskiptum. Sama virtist gilda um Bandaríkjamenn. Leyniþjónustuyfirmaðurinn sem skipulagði fangaskiptin hafði aldrei heyrt um Skripal, sem fékk að fylgja með í pakkasamningi um skipti á öðrum föngum sem bandarísk yfirvöld höfðu meiri áhuga á.
Skripal var hins vegar mikilvægur í augum eins manns, Vladimír Pútíns Rússlandsforseta, að því er segir í ítarlegri grein í New York Times. Blaðið bendir á að þeir Pútín og Skripal séu á svipuðum aldri, hafi hlotið sambærilega þjálfun hjá sovésku leyniþjónustunni KGB og að báðir hafi átt í erfiðleikum með að aðlagast er Sovétríkin hrundu.
Á meðan annar þeirra reis til valda missti hinn hins vegar mannorðið. Þegar Skripal var að reyna að finna sér nýjan starfsvettvang leituðust Pútín og bandamenn hans við að halda sovéska kerfinu og er Pútín komst til valda tók hann til við að jafna metin, ekki hvað síst gagnvart þeim sem höfðu svikið leyniþjónustuna er hún lá hvað best við höggi.
Hálft ár er frá því að Skripal fannst meðvitundarlaus á bekk í Salisbury á Englandi ásamt Yuliu dóttur sinni. Eitrað hafði verið fyrir þeim með taugaeitrinu Novichok og bresk stjórnvöld sökuðu Rússa um verknaðinn. Í lok síðasta mánaðar greindu bresk yfirvöld frá því að kennsl hefðu verið borin á rússnesku tilræðismennina sem reyndu að bana Skripal-feðginunum. Þeir heiti Alexander Petrov og Ruslan Boshirov og væru liðsmenn leyniþjónustu rússneska hersins GRU.
Rússnesk stjórnvöld hafa alfarið neitað að eiga nokkra aðkomu að tilræðinu og hafði BBC eftir Pútín í vikunni að búið sé að bera kennsl á mennina sem séu almennir borgarar, ekki glæpamenn. „Það er ekkert spennandi við þetta, ég fullvissa ykkur um að þetta er ekkert glæpsamlegt,“ sagði Pútín.
Sjálfir sögðu mennirnir í viðtali við rússnesku RT-sjónvarpsstöðina að þeir hefðu farið til Salisbury til að skoða dómkirkjuna, en bresk yfirvöld hafa hafnað þeirri skýringu og segja hana „móðgun“, að því er AFP-fréttastofan greinir frá.
New York Times segir vissulega ekki vitað hvort að Pútín hafi átt aðild að tilræðinu við Skripal, ýmsir snertifletir séu engu að síður á ævi þessara fyrrverandi KGB liðsmanna, líkt og tugir viðtala, sem blaðamenn New York Times tóku í Bretlandi, Rússlandi, á Spáni, í Eistlandi, Tékklandi og Bandaríkjunum, sýni fram á.
Pútín hafi til að mynda fylgst með af vaxandi reiði er Skripal og þrír aðrir dæmdir njósnarar voru framseldir til Vesturlanda 2010. Er hann var spurður um framsal njósnaranna á sínum tíma kvaðst Pútín eiga sér dagdrauma um dauða þeirra. Litlu hafi þá skipt að Skripal teldist smáseiði innan leyniþjónustunnar.
New York Times rifjar upp að á svipuðum tíma og breska leyniþjónustan fékk Skripal til að gerast gagnnjósnara hafi Pútín verið nýkomin heim til Sovétríkjanna eftir að hafa starfað fyrir KGB í Austur-Þýskalandi.
Mikil ringulreið ríkti á þeim tíma innan sovéska stjórnkerfisins. Starfsmenn í kolanámum, hermenn og læknar höfðu ekki fengið greidd laun mánuðum saman og sama gilti um Pútín, sem var heimilislaus og hafði ekki fengið greidd laun í þrjá mánuði.
Ýmsir leyniþjónustumenn sem þess áttu kost á þessum tíma, gerðust gagnnjósnarar eins og Skripal, eða þáðu laun fyrir að veita erlendm ríkjum upplýsingar og aðstoð.
Oleg B. Ivanov, sem vann með Skripal í Moskvu, segir hann, eins og aðra, hafa átt í basli með að halda haus í allri ringulreiðinni sem varð er Sovétríkin hrundu. Skripal hafi hins vegar alltaf haft augun opin fyrir möguleikunum. „Hann var efnishyggjumaður,“ sagði Ivanov. „Hann einfaldlega elskaði peninga.“
Það hafi því ekki endilega komið sér á óvart er hann heyrði í fréttum 2006 að Skripal hefði gerst gagnnjósnari fyrir Breta. Þótt það hafi ekki verið sérlega virðingavert hafi það engu að síður verið skiljanlegt.
Pútín upplifði þessa sömu ringulreið er hann kom heim frá Dresden í Austur-Þýskalandi með ekkert annað en 20 ára gamla þvottavél, sem var kveðjugjöf frá nágranna, til að sýna fyrir dvölina í Austur-Þýskalandi. Fjöldi njósnara sem sneru aftur heim til Rússlands eftir að kalda stríðinu lauk var slíkur að yfirvöld gátu ekki hýst þá alla.
New York Times segir Pútín hafa tekið því persónulega að hafa ekki getað varið alla þýsku heimildamenn sína fyrir því að upp um þá kæmist. Blaðið segir Pútín hafa á einum tímapunkti hafa biðlað til sovéska hersins að verja höfuðstöðvar KGB í Austur-Þýskalandi fyrir þýskum mótmælendum sem biðu þess að koma höndum yfir skjölin sem þar var að finna. „Moskva svarar ekki,“ sagði liðsforinginn sem Pútín ræddi við og honum var tíðrætt um þessa minningu næstu árin. „Mér leið eins og landið væri ekki til lengur,“ sagði Pútín síðar.
Sergei Roldugin, vinur Pútins, segist líka aldrei hafa séð hann jafnmeyran og er hann ræddi um austurþýsku heimildamennina sem upp komst um. „Hann sagði þetta jafngilda landráði. Hann var í miklu uppnámi,“ sagði Roldugin við Steven Lee Myers sem ritaði ævisögu Pútíns.
Líkt og áður sagði gerðust margir rússneskir leyniþjónustumenn uppljóstrara eða liðhlaupar á þessum tíma og Pútín hefur ekki reynt að leyna andúð sinni á þeim er málið ber á góma. Þeir eru „skepnur“ og „svín“.
Launráð sagði hann eitt sinn í viðtali að væri eina syndin sem hann gæti ekki fyrirgefið. Launráð geti líka verið heilsuspillandi. „Það fer alltaf illa fyrir svikurum,“ sagði Pútín. „Undantekningalítið deyja þeir af völdum drykkju eða fíkniefnanotkunar.“
Þegar Pútín komst til valda tók hann á landráðamönnum með sama hætti og öðrum meinum tíunda áratugarins – olígörkunum og glæpaforingjunum. Segir New York Times fyrstu árin eftir að Pútín komst til valda hafa markast af dómum fyrir njósnir, sem sumir hafi greinilega byggst á hefndarþorsta.
Það kann að vera tilviljun en daginn áður en Pútín var kjörinn forseti í fyrsta skipti komst upp um gagnnjósnastarfsemi Skripals og segir New York Times að um úthugsaðan leka hafi verið að ræða, gerðan til að eyðileggja feril Skripal, sem varð „ósnertanlegur“ á eftir.
Hann var síðan dæmdur til 13 ára fangelsisvistar, en saksóknari hafði áður farið fram á 15 ára dóm.
Það var síðan á því tímabili sem Pútín gerðist forsætisráðherra og Dimitry Medvedev settist á forsetastólinn sem Skripal var afhentur vesturveldum sem hluti af stærri fangaskiptapakka. Þíða var í samskiptum ríkjanna á þessum tíma, enda lynti Medvedev vel við Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta.
Leon Panetta, forstjóri CIA, var ekki bjartsýnn á að Rússar myndu fallast á fangaskipti. Hann hafði eitt sinn hitt Mikhail Fradkov, yfirmann útlandadeildar rússnesku leyniþjónustunnar. Þá spurði hann Fradkov hvað hann teldi stærstu mistök rússnesku leyniþjónustunnar og nefndi sjálfur að hann teldi Íraksinnrásina stærstu mistök CIA.
Fradkov hugsaði sig lengi um en sagði svo „Penkovsky“. Svarið kom Panetta verulega á óvart, en segir mikið um viðhorf rússneska stjórnkerfisins til svikara. Oleg Penkovsky var ofursti í leyniþjónustu rússneska hersins á árabilinu 1950-60, en um leið gagnnjósnari fyrir bresku og bandarísku leyniþjónustuna. Hann veitti Bandaríkjamönnum m.a. upplýsingar sem Kennedy-stjórnin gat nýtt sér í Kúbudeilunni. Penkovsky var síðar handtekinn af sovéskum yfirvöldum og er talinn hafa verið tekinn af lífi.
Nokkrum dögum áður en Panetta ræddi við Fradkov árið 2010 hafði bandaríska alríkislögreglan handtekið 10 óvirka rússneska njósnara, sem höfðu starfað í Bandaríkjunum í tæpan áratug. Panetta lagði til skipti á þeim og 3-4 einstaklingum sem bandarísk yfirvöld höfðu áhuga á. Að þessu sinni var beiðninni ekki svarað með flækjunum og synjununum sem venjulega hefðu fylgt, heldur var tillagan samþykkt.
Panetta rifjar upp að nafn Skripals, sem hann þekkti ekkert til, hafi bæst seint á listann. „Ég held að það hafi verið rússneska deildin hjá CIA sem kom með nafn hans og honum var bætt á listann,“ segir hann.
Pútín er hins vegar sagður hafa verið öskuillur yfir fangaskiptunum.
„Maður tileinkar ættjörðinni líf sitt allt og svo koma einhverjir bastarðar og svíkja þá sem þetta gera,“ sagði Pútín er hann var spurður í sjónvarpi út í fangaskiptin. „Hvernig eiga þessi svín að geta horft í augu barna sinna? Þeir munu kafna á því sem þeir fengu í skiptum fyrir þessa 30 silfurpeninga, þið getið treyst því.“
Pútín bætti því næst við að jafnvel þó að svikararnir deyi ekki muni þeir þjást. „Þeir verða að vera í felum ævina á enda. Þeir geta aldrei talað við aðra, talað við ástvini sína.“
Pútín rétti svo úr sér og horfði beint í myndavélina. „Þeir sem velja þessi örlög munu iðrast þess þúsund sinnum.“
Blaðamaður spurði Pútín skömmu eftir fangaskiptin hvort hann þekkti nöfn landráðamannanna sem sviku félaga sína. „Vitanlega,“ sagði Pútín sem var því næst spurður hvort hann myndi refsa þeim. „Þetta er röng spurning,“ sagði Pútín. „Þetta er nokkuð sem ekki er hægt að ákveða á fréttamannafundi. Þeir lifa samkvæmt eigin reglum og þær reglur þekkja allir í leyniþjónustunni.“
Þegar Pútín settist á forsetastólinn á ný 2012 höfðu Skripal og hinir föðurlandssvikararnir, sem afhentir voru leyniþjónustum vesturveldanna, þegar tvístrast. Pútín var hins vegar ekki lengi að vinda ofan af þíðunni sem myndast hafði í samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna í stjórnartíð þeirra Medvedev og Obama.
New York Times segir Skripal hafa verið einmana í útlegðinni í Bretlandi. Hann hafi, til að byrja með a.m.k., forðast að ræða fortíð sína og sagst vera yfirmaður byggingafyrirtækis sem væri nýfluttur frá Spáni.
Búlgarski leigubílstjórinn Ivan Bombarov, sem átti vini í enskutímunum sem Skripal sótti, segir vini sína hafa glott að þeirri skýringu. „Í Búlgaríu sjáum við marga mafíósa,“ sagði hann til útskýringar.
Einangrun Skripals jókst enn frekar eftir að Lyudmila eiginkona hans lést úr krabbameini 2012 og árið 2017 lést sonur hans af veikindum vegna ofdrykkju. Skripal og Yulia dóttir hans voru þau einu í fjölskyldunni sem voru enn á lífi. Hann í Bretlandi og hún í Moskvu með kærastanum.
Rússneski kaupsýslumaðurinn og innflytjandinn Valery Morozov, sem kynntist Skripal í Bretlandi, segir hann jafnan hafa tárast er hann ræddi konu sína og son.
„Hann saknaði Rússlands,“ sagði Ross Cassidy, sem varð vinur hans í Bretlandi og nágranni hans Lisa Carey, segir að þau hafi hlegið þegar Skripal stærði sig af því að hafa verið njósnari. „Við héldum að hann væri bara klikkaður,“ sagði hún.
Skripal hélt reglulega kynningar um GRU fyrir leyniþjónustustofnanir í Evrópu og Bandaríkjunum. Nigel West, sagnfræðingur sem sérhæfir sig í sögu bresku leyniþjónustunnar, segir slík verkefni vera eina leið til að fyrrverandi njósnarar hafi eitthvað fyrir stafni. „Það er ekki óalgengt að þeir sem hlaupast undan merkjum upplifi leiða eftir á og finnist þeir vera vanmetnir,“ sagði hann. Þetta sé nokkuð sem umsjónarmenn fyrrverandi njósnara séu meðvitaðir um.
Fundirnir með öðrum njósnurum er hann ferðaðist til Eistlands, Tékklands og fleiri ríkja á vegum bresku leyniþjónustunnar hafi hins vegar minnt Skripal á gömlu dagana. „Í grunninn voru þetta fundir milli einstaklinga úr sama geira sem áður tilheyrðu hvor sínum málstaðnum. Þeir borðuðu saman og hádegisverðurinn gat staðið tímunum saman. Þetta var mjög skemmtilegt,“ hefur New York Times eftir evrópskum leyniþjónustumanni sem ekki vildi láta nafns síns getið.
Breska leyniþjónustan hefur gefið lítið fyrir kynningar Skripals og telur þær ekki hafa skipt miklu máli. Ekki hefur þó verið greint frá því hvaða upplýsingum Skripal deildi.
Aleksei A. Venediktov, ritstjóri útvarpsstöðvarinnar Ekho Moskvy, segir rússneska ráðamenn kunna að hafa verið dómharðari í garð kynninganna en bresku leyniþjónustuna grunaði. „Þegar maður er kominn þangað yfir á maður ekki að vinna gegn Rússlandi. Þannig eru reglurnar,“ sagði Venediktov. „Þetta er hvergi skrifað, en það vita þetta allir. Fortíðin er fyrirgefin og í framtíðinni lifir viðkomandi á ellilífeyrinum og stundar blómarækt í rólegheitum. Þetta eru skilyrðin. Það er bannað að beita hernaðarþekkingunni gegn Rússandi, gegn Sovétríkjunum. Og hvað gerði Skripal? Það er staðfest að hann braut þessa reglu.“
Þegar Skripal fannst meðvitundarlaus á bekk í Salisbury á Englandi með Yuliu dóttur sinni fóru fréttirnar víða og leyniþjónustur í fjölda landa sperrtu eyrun þegar staðfest var að taugaeitri hefði verið beitt. Segir New York Times í annarri grein CIA m.a. nú endurskoða öryggisráðstafanir vegna uppljóstrara sem búa í Bandaríkjunum og hversu auðvelt kunni að vera fyrir rússnesk stjórnvöld að hafa uppi á þeim. CIA hafi til að mynda fyrir fjórum árum orðið vart við mann á Flórída sem talinn var geta verið launmorðingi rússneskra yfirvalda. Sá maður sást í nágrenni heimilis eins mikilvægasta uppljóstrara CIA sem hafði verið komið fyrir í Flórída.
Samkvæmt reglum sem öllum rússneskum leyniþjónustumönnum eiga að vera vel kunnar komu nefnilega tveir launmorðingjar til Bretlands og gengu þar frá einu smáseiði.