Með því að reisa landamæravegg þvert í gegnum Sahara-eyðimörkina væri hægt að koma í veg fyrir innflytjendakrísuna í Evrópu. Það er að minnsta kosti mat Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem ráðlagði Josep Borell, utanríkisráðherra Spánar, að reisa slíkan vegg.
Ráðið veitti Trump þegar Borell heimsótti Bandaríkin ásamt spænsku konungshjólunum í júní. Borell greindi frá þessu samtali sínu við forsetann á hádegisviðburði í Madríd í vikunni. BBC greinir frá.
Trump sagði jafnframt að ætlun hans að byggja vegg við landamæri Mexíkó til þess að stöðva fólksflutninga til landsins og eiturlyfjasmygl hafi verið meðal bestu kosningaloforða hans.
„Landamærin við Sahara eru varla stærri en landamæri okkar og Mexíkó,“ á Trump meðal annars að hafa sagt við Borell. Landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna eru um þrjú þúsund kílómetra löng en Sahara-eyðimörkin er tæplega fimm þúsund kílómetrar að lengd. Spánn hefur ekkert tilkall til yfirráða í eyðimörkinni en það gera hins fjölmörg önnur ríki. Það gæti því reynst þrautinni þyngri fyrir spænsk yfirvöld að byggja landamæravegg í eyðimörkinni.
Borell hefur ekkert sagt til um hvernig hann tók í þessar ráðleggingar Trumps en talsmaður utanríkisráðuneytis Spánar staðfestir að samtalið hafi átt sér stað.
Frá því í janúar hafa 35.000 flóttamenn komið til Spánar, fleiri en í nokkru öðru landi innan Evrópusambandsins.