Neitar ráðabruggi um að koma Trump frá

Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir hér við Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ræðir hér við Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra. AFP

Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra  Bandaríkjanna, neitar því alfarið að hann hafi rætt um að víkja Donald Trump Bandaríkjaforseta af forsetastóli með vísun í 25. grein stjórnarskrárinnar. Hefur BBC eftir Rosenstein að fullyrðingin sé „ónákvæm og staðreyndalega röng“.

New York Times hefur eftir nafnlausum heimildamönnum að Rosenstein hafi lagt til að hljóðupptaka yrði tekin af forsetanum með leynd til að svipta hulunni af ringulreiðinni sem ríki í Hvíta húsinu.

Er tillagan sögð hafa verið sett fram á þeim tíma er Trump rak James Comey, þáverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

Comey hafði á þeim tíma yfirumsjón með rannsókn FBI á tengslum framboðs Trumps og rússneskra ráðamanna. Vísaði Trump til „Rússamálsins“ þegar hann var spurður um ákvörðun sína að reka Comey.

Að sögn New York Times á Rosenstein að hafa rætt að fá ráðherra stjórnarinnar til að skýrskota til 25. greinar stjórnarskrárinnar sem kveður á um að fjarlægja megi forseta úr embætti reynist hann óhæfur til að gegna starfinu. Þá er Rosenstein sagður hafa lagt til að leynilegar hljóðupptökur yrðu teknar upp af forsetanum, til að svipta hulunni af ringulreiðinni og truflununum sem væru á starfinu í Hvíta húsinu.

Á Rosenstein að hafa lagt þetta til á fundum, sem og í samræðum dómsmálaráðuneytisins og FBI.  Vitnar New York Times til heimildamanna sem ýmist var greint frá samtölunum, eða vísaði í minnisblöð þar sem vitnað var í þau.

Segir blaðið Trump kunna að líta á greinina sem réttlætingu á þeirri trú sinni að samsæri sé innan stjórnkerfisins um að koma sér úr embætti. Hann hefur líka áður gagnrýnt fréttir New York Times og Washington Post þar sem vitnað er í nafnlausa heimildamenn. 

Rosenstein sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar fréttar New York Times þar sem hann sagði að hún væri bæði „ónákvæm og staðreyndalega röng“.

„Ég mun ekki tjá mig frekar um frétt sem byggir á nafnlausum heimildamönnum sem eru augljóslega hlutdrægir gegn ráðuneytinu,“ sagði Rosenstein. „Ég get hins vegar verið alveg skýr með þetta: Á grundvelli minna persónulegu kynna af forsetanum þá er engin grunvöllur fyrir að virkja 25. greinina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert