Múr Trump byrjaður að rísa í Texas

Donald Trump Bandaríkjaforseti skoðar hér líkan af múr í San …
Donald Trump Bandaríkjaforseti skoðar hér líkan af múr í San Diego, vegna hugmynda hans um múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Landamæramúrinn, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið því að reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó er nú tekinn að rísa í Texas.

Trump hefur sagt múrinn vera leið til þess að draga úr straumi ólöglegra innflytjenda, sem hann telur vera öryggisógn.

Þessi kafli múrsins er um sex kílómetra langur og mun koma í stað núverandi girðingar á milli El Paso í Texas og Ciudad Juarez í Mexíkó, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá bandaríska landamæraeftirlitinu.

Þessi nýi varnarveggur mun verða mun varanlegri og áhrifaríkari leið að halda úti þeim sem vilja komast ólöglega til landsins,“ er haft eftir Aaron Hull, yfirmanni landamæraeftirlitsins í El Paso í yfirlýsingunni.

Nýi veggurinn verður um 5,4 metra hár og með stálstöngum og munu landamæraverðir geta séð hvað er að gerst hinum megin við vegginn.

Kostnaður við verkið nemur 22 milljónum dollara og á vinnu við það að ljúka á sjö mánuðum.

Í apríl greindi landamæraeftirlitið frá því að vinna myndi hefjast við 32 km langan kafla, sem taka eigi við að núverandi varnargirðingu í Santa Teresa í Nýju Mexíkó.

Sameiginleg landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna eru rúmlega 3.200 km löng og hefur þingið þegar samþykkt  1,6 milljarða dollara fjárheimildir fyrir nýrri varnargirðingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert