Hækka tolla á kínverskar vörur

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt tollahækkanirnar eiga að koma í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt tollahækkanirnar eiga að koma í veg fyrir stuld Kínverja á bandarískri tækni. AFP

Bandarískir tollar á kínverskar vörur að andvirði 200 milljarða dollara hækkuðu á miðnætti í nótt en áður höfðu bandarísk stjórnvöld  lagt tolla á kínverskar vörur fyrir um 50 milljarða dollara.

Kínversk stjórnvöld svöruðu tollahækkuninni í sömu mynt og lögðu aukna tolla á bandarískar vörur að andvirði 60 milljarða dollara. Þau segja aðgerðir bandarískra stjórnvalda óréttlátar og að Bandaríkin hafi hafið „stærsta viðskiptastríð í sögunni“.

BBC segir tollahækkanirnar nú taka til um 6.000 hluta og að tollahækkanirnar í sumar og haust nái til um helmings alls kínversks innflutnings til Bandaríkjanna.

Tollarnir munu svo hækka í 25% í byrjun næsta árs, hafi ríkin ekki komist að samkomulagi fyrir þann tíma.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt tollana vera leið til að „binda endi á óréttátan flutning bandarískrar tækni og hugbúnaðartækni til Kína“. Kínversk stjórnvöld segja slíkar ásakanir rangar og að þær séu settar fram í þeim tilgangi einum að hræða önnur ríki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert