Afrekað meira en forverar hans

Donald Trump ávarpar allsherjarþingið.
Donald Trump ávarpar allsherjarþingið. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að hann hefði gert meira á síðustu tveimur árum en næstum því allir forverar hans í embættinu.

„Á innan við tveimur árum hefur ríkisstjórn mín afrekað meira en næstum því allar ríkisstjórnir í sögu landsins okkar,“ sagði Trump.

Hann bætti við að Bandaríkin væru sterkari, ríkari og öruggari en áður, að því er BBC greindi frá. 

Ummælin uppskáru hlátrasköll í salnum og Trump brást þannig við: „Ég bjóst ekki við þessum viðbrögðum.“

Vill stuðla að einangrun Írans

Trump hvatti ríkisstjórnir heimsins til að stuðla að einangrun Írans og sagði að ráðamenn í landinu sái fræjum „ringulreiðar, dauða og eyðileggingar“.

„Við biðjum allar þjóðir um að stuðla að einangrun ríkisstjórnar Írans svo lengi sem aðgangsharka landsins heldur áfram,“ sagði hann.

Forsetinn greindi einnig frá því að Bandaríkin muni aðeins veita þeim þjóðum neyðaraðstoð sem þau líta á sem bandamenn sína.

„Við munum skoða hvað er að ganga upp, hvað er ekki að ganga upp og hvort löndin sem fá frá okkur bæði dollara og vernd hugsi einnig um okkar hagsmuni.“

Gagnrýndi Alþjóðastríðsglæpadómstólinn 

Trump sagði Alþjóðastríðsglæpadómstólinn (ICC) ekki vera lögmætan og sagði að hann bryti gegn „öllum grundvallarreglum réttlætis“.

„Hvað Bandaríkin varðar hefur ICC enga lögsögu, ekkert lögmæti og ekkert vald,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert