Christine Blasey Ford, sem hefur sakað Brett Kavanaugh um að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi, segir að árásin hafi haft áhrif á allt hennar líf. Það sé ekki hennar að ákveða hvort hann eigi að setjast í hæstarétt en það sé á hennar ábyrgð að segja sannleikann. Ford mun bera vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag.
Kavanaugh hefur hins vegar neitað öllum ásökunum Ford og mun einnig bera vitni fyrir nefndinni í dag og segir hann það vera til þess að geta „hreinsað nafn sitt“.
Ford lýsir áhrifum árásarinnar á líf hennar í skriflegum vitnisburði sem lagður hefur verið fram. Hún var fyrst þriggja kvenna sem hafa stigið fram og greint frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu Kavanaugh en hann neitar öllum ásökunum.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, útilokar ekki að draga tilnefningu Kavanaugh til baka eftir vitnaleiðslur fyrir nefndinni í dag.
Ford sakar Kavanaugh um að hafa reynt að afklæða hana, að hafa haldið henni fanginni og káfað á henni þegar hún var 15 ára og hann 17 ára.
„Árás Bretts hafði gríðarleg áhrif á allt mitt líf. Í langan tíma var ég of hrædd og skammaðist mín of mikið til þess að segja nokkrum manni frá þessu í smáatriðum,“ segir Ford í skriflegri yfirlýsingu.
„Ég reyndi að sannfæra sjálfa mig um að þar sem Brett hefði ekki nauðgað mér þá ætti ég að hætta að hugsa um þetta og láta eins og ekkert hefði í skorist,“ segir hún.
Að sögn Ford læstu Kavanaugh og vinur hans, Mark Judge, hana inni í herbergi í veislu í úthverfi Washington-borgar sumarið 1982.
„Bæði Brett og Mark voru drukknir og hlógu allan tímann á meðan árásinni stóð,“ segir Ford. Judge segist ekki muna eftir atvikinu.
„Ég hélt að [Brett Kavanaugh] ætlaði að nauðga mér,“ segir Ford og bætir við að það sem hafi hrætt hana mest hafi verið að hann hafi haldið fyrir munn hennar allan tímann. „Ég átti í erfiðleikum með að anda og ég hélt að Brett myndi fyrir slysni drepa mig.“
Hún segir að þegar Judge hafi komið upp í rúmið til þeirra hafi Kavanaugh oltið ofan af henni og þá náði hún að forða sér út úr herberginu. Ford er doktor í sálfræði og prófessor við Palo Alto-háskólann í Flórída.
Deborah Ramirez, sem var bekkjarsystir Kavanaugh í Yale háskólanum, segir að hann hafi eitt sinn í partýi á heimavistinni berað sig fyrir framan hana. Þriðja ásökunin á hendur dómararnum er frá því hann var í menntaskóla. Julie Swetnick sakar hann um að hafa tekið þátt í að byrla stúlkum ólyfjan og beita þær kynferðislegu ofbeldi í partýum á níunda áratugnum. Hún segist vera fórnarlamb hópnauðgunar af hálfu Kavanaugh og félaga árið 1982.
Dómarinn segir í skriflegri yfirlýsingu að henni þekki ekki Swetnick og að ekkert sé hæft í fáránlegum ásökunum hennar.
Trump hrósaði sér fyrir valið á Brett Kavanaugh í gær en bætti við að ef eitthvað kæmi fram við vitnaleiðslurnar í dag sem sannaði sekt hans þá væri hann reiðubúinn til þess að draga tilnefninguna til baka.
„Það er alltaf hægt að sannfæra mig,“ sagði Trump í gær. „Ef ég teldi að hann væri sekur um eitthvað líkt þessu að sjálfsögðu,“ bætti Trump við á blaðamannafundi í New York í gær þegar hann var spurður út í ásakanir á hendur dómaraefninu.
Trump segist vilja fylgjast með þegar Ford ber vitni í dag og hann bíði spenntur eftir því að heyra hvað hún hafi að segja. Eins hvað Kavanaugh hafi að segja. „Ég tel að þetta verði mjög mikilvægur dagur í sögu lands okkar.“