Brett Kavanaugh, sem tilnefndur er í embætti hæstaréttardómara, og Christine Blasey Ford, sem sakar hann um kynferðislegt ofbeldi fyrir 36 árum, eru bæði sannfærð um að minningar þeirra séu réttar.
Þau greinir hins vegar á um hvað gerðist. Elizabeth Loftus, sem er leiðandi í minnisrannsóknum og prófessor í lögum og minnisvísindum við Kaliforníuháskóla í Irvine, segir að það sé mögulegt að þau séu bæði heiðarleg í frásögn sinni.
Loftus hefur rannsakað minni í áratugi og ræddi við AFP-fréttastofuna um vitnaleiðslur Ford og Kavanaugh fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.
„Hún var mjög trúverðug og viðkunnanleg. Flestir vildu trúa því sem hún sagði og hún virtist trúa eigin orðum. Hann leit út fyrir að vera mjög reiður en það er hægt að búast við því af einhverjum sem er ranglega sakaður um eitthvað,“ sagði Loftus.
„Ef hann gerði þetta og man ekki eftir því vegna þess að langt er um liðið eða vegna þess að hann drakk meira en venjulega og gleymdi þessu, þá gæti hann trúað neitun sinni,“ bætti hún við.
Spurð sagði Loftus að það væri algengt að fólk misminnti eitthvað sem gerðist í raun og veru. „Þegar fólk upplifir eitthvað, sérstaklega eitthvað óþægilegt, þá man það helstu atriðin. Til að mynda man fólk ef það lenti í flugslysi en ekki eldsvoða en minni atriði gleymast,“ sagði Loftus og hélt áfram:
„Minnið breytist síðan þegar mismunandi fólki er sagt frá atburðinum.“
Hún greindi frá rannsókn þar sem rannsakendur reyndu að hafa áhrif á minni þeirra sem tóku þátt. „Við sýndum fólki slys þar sem bíll ekur á biðskyldu en síðar sögðum við fólki að bíllinn hefði ekið á stöðvunarskyldu. Margir sögðust muna eftir því að hafa séð stöðvunarskyldu,“ sagði Loftus.
„Það er fremur auðvelt að breyta einhverjum atriðum í tengslum við minningar og það getur gerst ósjálfrátt.“
Aðspurð sagði Loftus að það breyti litlu þótt fólk segist vera 100% öruggt um að eitthvað hafi gerst, eða ekki gerst. „Stundum er einhver handviss um eitthvað og hefur rangt fyrir sér,“ sagði Loftus og sagði að stundum væri einhver „nokkuð viss“ í byrjun máls en þegar komið væri í réttarsal væri sami aðili mjög viss og þar af leiðandi meira sannfærandi.
„Þá ertu með aðila sem er handviss um eitthvað en var það ekki áður. Við þurfum að spyrja hvers vegna þeir eru svona sannfærðir.“
Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti tilnefningu Kavanaugh í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna í kvöld. Fundur nefndarinnar hélt áfram að því loknu þar sem samþykkt var að fara fram á að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, myndi fyrirskipa að alríkislögreglan (FBI) rannsaki að nýju ásakanir um kynferðisbrot á hendur Kavanaugh og féllst Trump á beiðni nefndarinnar.