Hvers vegna varð minni háttar umferðaróhapp í sænskum bæ fyrr í vikunni að alþjóðlegri frétt í gær þar sem meðal annars var talað um mögulega hryðjuverkaárás? Þetta er spurning sem ýmsir velta fyrir sér í Svíþjóð og að sögn varðstjóra í lögreglunni, Bengt Jeppsson, var ekki framinn neinn glæpur og aðeins um umferðaróhapp að ræða.
Fréttavefurinn The Local ræðir við Jeppsson síðdegis í gær og spurði hann hvort talið væri að ökumaðurinn hefði ekið viljandi á gangandi vegfarendur og neitar hann því. Lögreglan hafi aldrei talið að svo væri en bifreið var ekið nálægt hópi skólabarna með þeim afleiðingum að vinstri spegill bifreiðarinnar rakst utan í tvö barnanna.
Í frétt Expressen er talað um 100 skólabörn og haft eftir Jeppsson að hann teldi að ekki hafi verið ekið viljandi á börnin en ekki væri hægt að útiloka það.
Atvikinu var slegið upp í breska dagblaðinu Daily Express sem hryllilegu atviki þar sem bifreiðinni hafi verið ekið inn í hóp barna.
Blaðið vitnaði í Blekinge Läns Tidning sem greindi frá því að börnin hafi þurft að víkja fyrir bifreiðinni en sænska orðatiltækið kasta sig undan bilen, sem í þessu samhengi þýddi að börnin hafi þurft að hraða sér en varð að þau hafi þurft að forða sér með hraði undan bílnum.
Á Facebook-síðu Daily Express voru margir sem vísuðu til þess að sökudólgurinn væri íslam-trúar og innflytjandi á meðan aðrir töluðu um lygafrétt.
Á alþjóðlegum öfgasíðum fór fréttin víða, svo sem á InfoWars sem greindi frá því að ökumannsins væri leitað af lögreglu um allt land á meðan annar vefur greindi frá því að það sem gerði málið sérstakt væri að sænskir fjölmiðlar þegðu um það fyrir utan einn fjölmiðil.
Á vef bandarískra nýnastista er talað um að atvikið gefi tilefni til þess að hreinsa Svíþjóð af múslimum.
Í Twitter-færslu öfgamanns, Peter Sweden, er talað um hryðjuverkaárás. „Ég þori að veðja að þið hafið ekki heyrt af þessu því það er varla fjallað um þetta í fjölmiðlum.“
Åsa Melkersson, sem stýrir skólaskrifstofunni í Sölvesborg, þar sem atvikið átti sér stað, segir að enginn nemandi hafi þurft að leita til læknis því enginn hafi meitt sig. Jafnframt hafi sálfræðingur heimsótt skólann í kjölfarið en enginn nemandi hafi séð ástæðu til þess að ræða við hann.