Samkvæmt bæklingnum var Arous paradís kafara við Rauða hafið í Súdan. Raunin var hins vegar sú að um var að ræða yfirvarp fyrir eina bíræfnustu leynilegu aðgerð sem ísraelska leyniþjónustan Mossad hefur staðið fyrir.
„Bræðraaðgerðin“ svo nefnda var notuð til að flytja 7.000 eþíópíska gyðinga úr flóttamannabúðum í Súdan til Ísrael og er frásögn af henni nú er að verða að Hollywood kvikmynd með þeim Ben Kingsley, Haley Bennett og Chris Evans í aðalhlutverkum. Leikstjórinn Gideon Raff lýsir myndinni og sögunni sem James Bond sögu „síonista“.
Það var á níunda áratug síðustu aldar Mossad kom sér fyrir á súdanska orlofsstaðnum Arous, sem stendur við Rauða hafið.
Að því er þeir ferðamenn sem þarna dvöldu og yfirvöld í Súdan vissu, þá var orlofsstaðurinn í eigu Evrópubúa sem fengu íbúa úr nágrenninu til starfa fyrir sig. Breska dagblaðið Independent segir egypska hermenn, breska sérsveitarmenn, erlenda diplómata og embættismenn súdönsku stjórnarinnar hafa verið meðal þeirra gesta sem þar dvöldu án þess að hafa hugmynd um hvaða starfsemi fór þar fram, en staðurinn naut nokkurra vinsælda hjá þeim sem vildu kafa meðal kóralrifa í Rauða hafinu.
„Fiskarnir nörtuðu í grímur kafaranna,“ rifjar Daniel Limor, sem stjórnaði aðgerðinni fyrir Mossad, upp í samtali við AFP-fréttastofuna.
Það var Limor, sem var áhugakafari, sem fyrst fann á Arous. Orlofsstaðurinn hafði verið reistur af ítölskum frumkvöðlum á áttunda áratugnum, en stóð nú auður vegna skorts á vegasamgöngum og rennandi vatni.
„Það var eins og þessi staður hefði fallið af himnum ofan,“ segir Limor og undrunin er enn greinanleg í rödd hans tæpum fjörtíu árum síðar.
Bræðraaðgerðin stóð yfir í fjögur ár, frá 1981-1985, en það var fyrir áeggjan eþíópísks gyðings í Kharthoum, höfuðborg Súdan, sem þáverandi forsætisráðherra Ísraels Menachem Begin ákvað árið 1977 setja slíka aðgerð í framkvæmd.
Á þeim tíma höfðu eþíópískir gyðingar flúið heimaland sitt og yfir til nágrannaríkisins Súdan til að komast undan hungursneyð, stríðsátökum og ofsóknum með það takmark að komast á endanum yfir til landsins helga, Ísrael.
Leiðin í gegnum Súdan var hins vegar full af hættum. „Þeir urðu fyrir árásum, þeim var nauðgað og þeir rændir,“ segir Limor sem fenginn var til ráðgjafar við gerð kvikmyndahandritsins fyrir myndina "The RedSea Diving Resort" sem frumsýnd verður á næsta ári. „Þeir sættu þjáningum og þeir dóu líka í flóttamannabúðum.“
Til að koma aðgerðinni í gang voru eþíópískir milligöngumenn fengnir til að velja þá gyðinga sem náð yrði í úr flóttamannabúðunum. Aðgerðin var hættusöm fyrir þá sem tóku þátt, enda voru samskipti milli stjórnvalda í Ísrael og Súdan, þar sem meirihluti íbúa eru múslimar, stirð.
„Við vorum augu, eyru og fætur Mossad,“ segir Miki Achihon, eþíópískur gyðingur, sem flúði til Súdan er hann var í námi í samtali við AFP. Þar sem þetta var fyrir tíma farsíma eða internets, voru öll samskipti persónuleg.
„Við vorum ekki með neinn samning við Mossad. Við fengum ekkert greitt fyrir,“ útskýrir bætir Achihon, sem síðar varð undirofursti í ísraelska hernum. „Við gerðum þetta fyrir fólkið okkar.“
AFP segir suma ferðamannanna hafa grunað að Arous væri, staðsetningar sinnar vegna, starfsstöð smyglara en orlofsstaðurinn var staðsettur andspænis sádi-arabísku borginni Jeddah.
„Það komst aldrei upp um tvöfalt líferni leyniþjónustumannanna, segir Yola, Mossad-fulltrúinn sem sá um rekstur dvalarstaðarins. Konur innan leyniþjónustunnar voru látnar sjá um daglegan rekstur Arous, svo dvalarstaðurinn virkaði minna grunsamlegur.
Bæði köfunarleiðbeinandinn og sá sem sá um seglbrettakennslu voru einnig liðsmenn Mossad. Geymslan fyrir köfunargræjur, en aðgangur að henni var bannaður, geymdi falin senditæki sem notuð voru til samskipta við höfuðstöðvarnar í Tel Aviv.
Leyniþjónustumennirnir yfirgáfu orlofsstaðinn við og við og sögðu þá öðrum starfsmönnum, sem ekki vissu hvað var að gerast að þeir þyrftu að skreppa burt í nokkra daga. Þeir keyrðu því næst að flóttamannabúðum sem voru í um 700 km fjarlægð. Þar biðu hópar 100-200 eþíópískra gyðinga sem leiddir höfðu verið inn í súdönsku eyðimörkina og svo óku Mossad-liðar með þá til baka að strönd í nágrenni Arous.
„Þetta var löng ökuferð að ströndinni, þetta var um 700 km leið,“ segir Gad Shimron, einn fulltrúa Mossad í Arous og sem síðar skrifaði bók um aðgerðina.
Er að ströndinni var komið flutti ísraelski sjóherinn flóttamennina með björgunarbátum um borð í skip ísraelska sjóhersins sem biðu á alþjóðlegu hafsvæði þar fyrir utan og svo áfram til Ísrael.
„Okkur datt vissulega í hug að við yrðum látnir hanga, þú veist, með fætur upp í loftið,“ bætir Shimron við.
Súdanskir hermenn, sem töldu smyglara vera á ferð, hófu enda skothríð á hópinn eitt kvöldið er síðasti báturinn var að halda frá landi. Þeir sluppu ómeiddir en leyniþjónustumönnunum var óneitanlega brugðið og því var breytt um aðferð.
Flugvélum var nú lent í eyðimörkinni í skjóli nætur og þær látnar flytja flóttamennina til Tel Aviv.
Shimron segir þá jafnan hafa glaðst þegar vélin tók á loft með flóttamennina og þeir stóðu eftir umvafðir eyðimerkurþögninni.
Yola segist hafa geta haldið áfram að vinna í Arous það sem eftir væri. „Mig langaði ekki til baka,“ segir hún. „Ég var fullkomlega orðin þessi manneskja.“
Aðgerðinni lauk hins vegar skyndilega 1985 þegar súdanska lögreglan yfirheyrði einn eþíópísku tengiliðanna. Í öryggisskyni voru allir fulltrúar Mossad fluttir með hraði frá Arous. Hraðinn var raunar slíkur, að því er BBC hefur eftir einum fyrrverandi liðsmanna Mossad, að þegar gestir vöknuðu næsta morgun var starfsfólkið horfið.
„Þeir vöknuðu og uppgötvuðu að þeir voru einir í eyðimörkinni,“ segir heimildamaðurinn. „Súdanska starfsfólkið var þarna, en engin annar. Köfunarleiðbeinandinn, framkvæmdastjórinn og allir hvítu starfsmennirnir voru farnir.“
AFP segir rúmlega 100.000 eþíópíska gyðinga hafa flutt til Ísrael frá því á níunda áratugnum.
Bræðraaðgerðin var heldur ekki eina stóra aðgerðin til að koma eþíópískum gyðingum til Ísrael. 1984 voru 8.000 eþíópískir gyðingar fluttir til Ísrael með Móses aðgerðinni og sjö árum síðar voru 14.000 manns flutt til Ísrael á 36 klukkustundum með Salómon aðgerðinni.
Ekki reyndist hins vegar öllum Eþíópíubúunum auðvelt að aðlagast nýja lífinu í Ísrael og margir söknuðu fjölskyldunnar sem þeir yfirgáfu.
Achihon segir marga hafa þurft á sálfræðiaðstoð að halda, en þessi í stað hafi verið reynt að láta þá strax verða virka þjóðfélagsþegna, með tungumálakennslu og ýmis konar starfsþjálfun.
„Það voru ekki allir tilbúnir,“ segir hann og kveður þá einnig hafa sætt nokkurri mismunun. Hetjudáðir eþíópísku tengiliðanna í Bræðraaðgerðinni megi þó ekki mega gleymast.