Aðstoðaði foreldrana við skattsvik

Trump er sagður hafa verið orðinn milljónamæringur 8 ára.
Trump er sagður hafa verið orðinn milljónamæringur 8 ára. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hjálpaði foreldrum sínum að skjóta milljónum dollara undan skatti á tíunda áratugnum og hagnaðist mun meira á fasteignaveldi föður síns en hann hefur látið uppi. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun The New York Times sem birtist í kvöld. Er hún er byggð á skattframtölum og fjármálagögnum sem ekki hafa verið birt opinberlega.

Trump hefur ítrekað haldið því fram að hann hafi byggt veldi sitt upp á eigin spýtur, en gögnin leiða annað í ljós. Forsetinn hafi fengið að minnsta kosti 413 milljónir dollara að núvirði frá fasteignaveldi föður síns. „Mikið af þessum peningum er tilkomið vegna þess að Trump hjálpaði foreldrum sínum að svíkja undan skatti,“ segir í umfjölluninni.

„Þriggja ára var hann að hagnast um 200 þúsund dollara á ári að núvirði á veldi föður síns. Átta ára var hann orðinn milljónamæringur,“ segir meðal annars í umfjöllun Times.

„Fljótlega eftir að Trump útskrifaðist úr framhaldsskóla var hann að fá um eina milljón dollara á ári og upphæðin hækkaði með árunum.“

Þá hafi forsetinn og systkini hans stofnað skúffufyrirtæki til að láta líta út fyrir að milljóna dollara gjafir frá foreldrum þeirra litu út eins og lögmætir viðskiptagjörningar. Alls hafi Fred og Mary Trump fært yfir einn milljarð dollara til barna sinna. Eins og erfðaskatti var háttað á þeim tíma sem foreldrarnir létust, á árunum 1999 og 2000, hefðu systkinin átt að greiða að minnsta kosti 550 milljónir dollara í skatt, en þau hafi ekki greitt nema rúmlega 50 milljónir.

Forsetinn varð ekki við ítrekuðum óskum blaðamanna The New York Times um viðbrögð við umfjölluninni, en lögmaður hans sendi þeim skriflegt svar þar sem fram kemur að engin skattsvik hafi átt sér stað. Ásakanarnir væru hundrað prósent rangar og ærumeiðandi.

Trump neitaði að birta skattaskýrslur sínar í aðdraganda síðustu forsetakosninga og vék þannig frá hefð sem frambjóðendur hafa fylgt fram til þessa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert