Hugsanlegt er að næsta niðursveifla á evrusvæðinu verði verri en sú síðasta þar sem ríkisstjórnir og seðlabankar innan svæðisins hafa ekki lengur nauðsynleg tæki til þess að takast á við nýja efnahagskrísu að mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody's.
Haft er eftir fyrirtækinu á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ríkisstjórnum Ítalíu, Spánar og Frakklands hafi ekki tekist að lækka skuldir sínar sem neinu nemi á sama tíma og Evrópski seðlabankinn sé enn að prenta peninga vegna síðustu krísu.
Fyrir vikið verði lítið svigrúm til þess að grípa inn í með fjárhagslegum stuðningi komi til nýrrar niðursveiflu. Enn fremur segir Moody's að evruríki með veikburða hagkerfi og mikið atvinnuleysi hafi gert of lítið til þess að koma á nauðsynlegum umbótum.
Einnig segir í greiningu matsfyrirtækisins að eftir því sem tíminn líði haldi svigrúmið til þess að grípa til aðgerða áfram að minnka. Meðal annars vegna þess að áhrifaþættir til lengri tíma gera stöðuna sífellt verri. Þar á meðal sífellt eldri íbúafjöldi evruríkjanna.
Hins vegar séu ekki aðeins hagkerfi evruríkjanna berskjölduð heldur einnig einkafyrirtæki. Þannig hafi mörg fyrirtæki safnað skuldum þrátt fyrir minnkandi lánstraust. Það hafi verið hægt vegna mikils framboðs á ódýru lánsfé. Þau stæðu því illa að vígi.
Staðan væri ekki mikið betri hjá heimilum á evrusvæðinu sem hefðu átt erfitt með að draga úr skuldsetningu sinni á sama tíma og sparnaður væri af skornum skammti. Fyrir vikið gætu þau átt erfitt með að greiða skuldir til baka ef vextir færu hækkandi.
Við bættist að fasteignaverð gæti farið lækkandi en lágir vextir hefðu ýtt undir hækkun þess til þessa. Þá benti flest til lítils hagvaxtar á evrusvæðinu næstu árin jafnvel þó ekki kæmi til niðursveiflu vegna lítillar framleiðniaukningar og hækkandi meðalaldurs.