Engin sönnun fyrir aðild Rússa

Rússarnir fjórir komu til Hollands á diplómatavegabréfum.
Rússarnir fjórir komu til Hollands á diplómatavegabréfum. Ljósmynd/Hollenska varnarmálaráðuneytið

Rússnesk stjórnvöld segja gögnin sem hollensk yfirvöld lögðu fram í síðustu viku um meinta aðild rússneskra ráðamanna að tilraun til netárásar á OPCW, alþjóðlega stofn­un gegn notk­un efna­vopna, ekki sanna neitt.

„Hvað ráðamenn í Kreml varðar þá hefur ekkert breyst,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, á fundi með fréttamönnum. Svaraði hann því neitandi til hvort rússnesk stjórnvöld teldu gögnin sem Hollendingar lögðu fram vera næga sönnun um aðild Rússa. Meðal gagnanna voru  diplómatavegabréf fjögurra Rússa sem gripnir voru við tilraun til netárásar, en greint hafði verið frá því að búið væri að bera kennsl á mennina sem njósnara GRU, leyniþjónustu rússneska hersins.

Sagði Peskov rússnesk stjórnvöld ekki munu ræða málið frekar í gegnum fjölmiðla og að þau sjái ekki nákvæm rök og kjósi því ekki að tjá sig um ákveðin atriði.

„Það eru virkar samskiptaleiðir í gegnum viðeigandi stofnanir [...] skjöl, sönnunargögn og opinberar upplýsingar geta verið sent eftir þeim leiðum,“ sagði Peskov.

AFP-fréttastofan segir þetta vera fyrstu viðbrögð rússneskra ráðamanna við ásökunum stjórnvalda í nokkrum vestrænum ríkjum sl. fimmtudag um að rússnesk stjórnvöld beri ábyrgð á röð netárása víða um heim, m.a. á OPCW.

Greindi hollenska öryggislögreglan frá því á fimmtudag að fjórum rússneskum liðsmönnum GRU hefði verið vísað úr landi í apríl, eftir tilraun til netárásar á OPCW. Hald var lagt á vegabréf mannanna og kvittun fyrir leigubíl sem tekin hafði verið frá húsakynnum GRU að flugvellinum í Moskvu og voru þessi gögn sýnd fjölmiðlum.

Rússneskar ríkisfréttastofur hafa greint frá því að hollenski sendiherrann í Rússlandi verði í dag boðaður á fund rússneska utanríkisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert