Tala látinna eftir skyndiflóð á spænski ferðamannaeyjunni Majorka er komin upp í 12, en björgunaraðilar fundu lík karlmanns og konu í dag. Líkin fundust í nágrenni Arta, sem er einn af bæjunum sem urðu fyrir flóðunum. Tilkynnt hafði verið að pars frá Þýslandi væri saknað á þessu svæði, en ekki hefur fengist staðfest að um sé að ræða sama fólk og fannst látið í dag. AFP-fréttastofan greinir frá.
Enn er leitað af fimm ára gömlum dreng sem saknað hefur verið frá því miklar rigningar hófust skyndilega síðdegis á þriðjudag. Hann var farþegi í bíl móður sinnar sem er ein þeirra sem lést í flóðunum. Hún mun hins vegar hafa náð að bjarga dóttur sinni úr bílnum áður en vatnið hreif hana og bílinn með sér.
Svo mikill vatnsflaumur myndaðist á skömmum tíma að fólk hafði aðeins nokkrar mínútur til að forða sér undan vatninu sem æddi áfram um götur nokkurra bæja á eyjunni.
Bærinn Sant Llorenc des Cardassar, sem er á austurhluta eyjunnar, fór til að mynda næstum í kaf eftir að á flæddi yfir bakka sína í kjölfar rigninganna. Hreingerningarstarf er nú hafið í bænum og eru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að hreinsa göturnar. Íbúar hafa reynt að safna saman eigulegum munum úr rústum húsa með aðstoð sjálfboðaliða.