„Hefði orðið versta flugslys sögunnar“

Vélin frá Air Canada olli næstum því stórslysi á flugvelli …
Vélin frá Air Canada olli næstum því stórslysi á flugvelli í Bandaríkjunum. AFP

Litlu mátti muna að stórslys yrði er flugvél frá Air Canada lenti næstum því á akstursbraut þar sem margar aðrar vélar, með marga innanborðs, var að finna á flugvelli í San Francisco á síðasta ári. Í skýrslu um atvikið segir að tekist hafi að afstýra „versta flugslysi sögunnar“.

Um borð í vélinni, sem er af gerðinni Airbus A320, voru 140 manns. Var flugstjóra vélarinnar gefið leyfi til að lenda á flugbraut 28-hægri á alþjóðaflugvellinum í San Francisco skömmu eftir miðnætti 7. júlí í fyrra. Flugmaður vélarinnar tók hins vegar óvart stefnuna á akstursbraut C þar sem fjórar flugvélar biðu þess að taka á loft.

„Aðeins nokkrum fetum mátti muna að árekstur yrði sem hefði þá orðið versta flugslys sögunnar,“ segir Bruce Landsberg, varaformaður flugslysanefndarinnar sem rannsakaði slysið og gaf út skýrslu sína í gær. Í skýrslunni kemur fram að vél Air Canada hafi aðeins flogið í um 30 metra hæð ofan við fyrstu vélina sem beið á akstursbrautinni.

Vélin hélt svo áfram að lækka flugið er hún flaug yfir næstu vél sem fyrir var á brautinni. Í kjölfarið fór hún að hækka flugið á nýjan leik. Í skýrslunni kemur fram að hvorki áhöfn vélarinnar né farþegar hafi slasast í atvikinu.

Mannleg mistök urðu til þess að valda þeim misskilningi að flugmaðurinn tók stefnuna á ranga braut.

Upptaka af samskiptum flugmannsins við flugturninn hefur verið birt og fer hér á eftir:

Aðeins skömmu eftir að vélin fær leyfi til að lenda á ákveðinni flugbraut virðist flugmaðurinn átta sig á að ekki sé allt með felldu.

Flugmaðurinn: „Uh, turn, ég vil bara fá staðfestingu, þetta er Air Canada 759, við sjáum einhver ljós á flugbrautinni þarna, um alla flugbrautina, getur þú staðfest að óhætt sé að lenda?“

Flugturninn: „Air Canada 759 fær leyfi til að lenda á flugbraut 28-hægri. Það er enginn á 28-hægri nema þú.“

Flugmaðurinn: „OK, Air Canada 759.“

Þá má heyra rödd þriðja mannsins, mögulega flugmanns í einni af vélunum sem biðu á flugbrautinni: „Hvert er þessi náungi að fara, hann er á akstursbrautinni.“

Þá kemur flugumferðarstjóri aftur til skjalanna og segir Air Canada-vélinni að lenda ekki. „Air Canada, farðu af braut.“

Flugmaðurinn segist strax ætla að gera það.

Flugmaður í vél United Airlines sem var á brautinni segir þá: „Air Canada flaug beint fyrir ofan okkur.“

Flugturninn svarar: „Já, ég sá þessa náunga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert