Bandaríski presturinn Andrew Brunson hefur verið látinn laus úr haldi tyrkneskra yfirvalda og er kominn til Bandaríkjanna. Hann hefur verið í haldi Tyrkja í tvö ár, grunaður um tengsl við uppreisnarhópa Kúrda og stuðningsmenn klerksins Fethullah Gulen, sem tyrknesk yfirvöld kenna um valdaránstilraunina í landinu árið 2016.
Mál Brunson hefur valdið nokkurri togstreitu í samskiptum Bandaríkjanna og Tyrklands, en Bandaríkjamenn hafa ítrekað óskað eftir því að Brunson verði leystur úr haldi og beitt Tyrki efnahagsþvingunum vegna málsins.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Brunson geri það að eitt að sínum fyrstu verkum að heimsækja sig í Hvíta húsið. Fundur þeirra tveggja verður haldinn þar kl. 18:30 að íslenskum tíma.
Hann sagði við blaðamenn í Cincinatti í gær að engir samningar hefðu verið gerðir við tyrknesk yfirvöld til þess að fá Brunson, sem búið hefur í Tyrklandi síðustu 20 ár, til Bandaríkjanna.
„Það var enginn samningur. En við erum mjög ánægð með að fá hann, fá hann í góðu ásigkomulagi,“ sagði Trump við blaðamenn og ítrekaði þetta síðar á Twitter-síðu sinni.
Móðir prestsins segir við Reuters að hún og faðir hans séu himinlifandi með að hafa endurheimt son sinn frá Tyrklandi. „Við erum hæstánægð með að guð hafi svarað bænum fjölda manns um allan heim,“ sagði hún við Reuters.
Tyrkir og Bandaríkjamenn eru bandamenn innan Atlantshafsbandalagsins en þrátt fyrir það hefur samband þeirra verið stirt, ekki síst vegna stuðnings Bandaríkjanna við hersveitir Kúrda í Sýrlandi og kaupa Tyrkja á rússnesku eldflaugavarnakerfi. Þessi málalok í máli Brunson gætu orðið til þess að bæta samskipti ríkjanna.
„Þetta er nauðsynlegt en þó langt frá því nægjanlegt skref til þess að snúa við þeirri sídýpkandi gjá sem myndast hefur á milli Bandaríkjanna og Tyrklands,“ segir Jon Alterman, sem stýrir deild um málefni Mið-Austurlanda við rannsóknarstofnunina Center For Strategic and International Studies í Washington, í samtali við New York Times.