Hann er hvatvís, hefur lýst aðdáun sinni á hermennsku, er fylgjandi almennri byssueign, afkastamikill á samfélagsmiðlum og hefur verið sakaður um kvenfyrirlitningu og rasisma: Hægri öfgamaðurinn Jair Bolsonaro, sem hlaut flest atkvæði í fyrstu umferð forsetakosninganna í Brasilíu, á sitthvað sameiginlegt með leiðtoga Bandaríkjanna, Donald Trump.
En er sá samanburður réttlátur?
Bolsonaro er 63 ára. Hann hlaut 46% atkvæða í fyrri umferð kosninganna um síðustu helgi sem þýðir að önnur umferð er óumflýjanleg.
Margir Brasilíumenn hafa heillast af þjóðrækni hans, harðri afstöðu hans gagnvart glæpum og ímyndinni sem hann hefur búið til um sjálfan sig: Af manni sem var eitt sinn utangarðs en vill nú leggja sitt af mörkum til að hreinsa til og byggja upp.
Önnur umferð forsetakosninganna fer fram þann 28. október. Vonast Bolsonaro til að geta siglt lygnan sjó að valdastólnum á öldu íhaldsseminnar sem varð til þess að hann hlaut fleiri atkvæði en hans helsti keppinautur, vinstrimaðurinn Fernando Haddad, sem fór í framboð eftir að forsetinn Luiz Inacio Lula da Silva fór í fangelsi vegna spillingar.
Stjórnmálafræðingurinn Joao Feres Junior, sem er prófessor við háskólann í Ríó de Janeiro, segir að velgengni Bolsonaro eigi sér hliðstæður í vegferð Donalds Trump að Hvíta húsinu. Eins og Trump „er hann leikari, frambjóðandi sem skilur lítið í almennum stjórnmálum, sem talar frjálslega, en hefur einhverra hluta vegna óútskýranlegan sjarma sem dregur að sér ákveðna tegund kjósenda – kjósenda sem hneigjast til fasisma“.
En Junior segir þó að grundvallarmunur sé á stuðningsmönnum Bolsonaro og Trumps. „Stór hluti þeirra sem kusu Trump var fátækt, hvítt fólk. Í tilfelli Bolsonaro er stuðningurinn mestur meðal millistéttar- og yfirstéttar fólks.“
Guilherme Casaroes, prófessor í stjórnmálafræði og alþjóðatengslum við Getulio Vargas-stofnunina, segir að Bolsonaro standi fyrir breytingar á stjórnmálakerfinu. Að því leyti líkist hann Trump.
En í grunninn er lífsreynsla þeirra gjörólík. Trump er erfingi mikilla auðæfa, komst undan herskyldu og hafði enga pólitíska reynslu en Bolsonaro var herforingi áður en hann hóf langan stjórnmálaferil sinn. Hann hefur nú átt sæti á brasilíska þinginu í 27 ár.
Bolsonaro er ekki nærri eins auðugur og Trump. Hann segir eignir sínar 495 þúsund dollara virði, um 58 milljóna króna. Þessu hafna reyndar helstu andstæðingar hans og segja um mikið vanmat að ræða.
Þá á Bolsonaro hvorki einkaþotu né lúxus-sumarleyfishús. Ennfremur eru hin pólitísku öfl að baki þeim ólík.
Trump er táknrænn leiðtogi Repúblikanaflokksins en að baki Bolsonaro er lítill róttækur íhaldsflokkur, Sósíalíski frjálslyndi flokkurinn, sem hann gekk til liðs við í mars á þessu ári.
„Bolsonaro var boðinn velkominn í mjög lítinn flokk og háði kosningabaráttu sína á mjög takmörkuðum opinberum fjárframlögum og fékk lítinn tíma í sjónvarpi,“ bendir Casaroes á. Þá varð hann að gera hlé á kosningabaráttu sinni eftir að hafa verið stunginn í kviðinn á kosningafundi í september og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús um hríð.
En árásarmaðurinn særði ekki frammistöðu Bolsonaro. Langt í frá.
Hann hefur aldrei verið áhugasamur um að ræða við fréttamenn en hefur notað samfélagsmiðla til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hann bætti í að þessu leyti eftir árásina. Í dag fylgja sjö milljónir honum á Facebook og fjórar milljónir á Instagram.
Þessari aðferð má líkja við þær sem Trump viðhafði í sinni baráttu þar sem hann notaði Twitter óspart og sakaði bandaríska fjölmiðla sífellt um hlutdrægni og flutning falsfrétta.
Það kemur því líklega engum á óvart að Bolsonaro hefur miklar mætur á forseta Bandaríkjanna. „Trump er fyrirmynd mín,“ sagði hann eitt sinn og að hann ætlaði sér, ef hann yrði forseti Brasilíu, að vinna náið með honum „til góða fyrir bæði Brasilíu og Bandaríkin“.
Og það má nefna aðra tengingu á milli mannanna tveggja. Í ágúst átti sonur hans, Eduardo Bolsonaro, sem var um helgina endurkjörinn á brasilíska þingið, fund með Steve Bannon, er eitt sinn var einn helsti ráðgjafi Trumps. Bannon berst fyrir útbreiðslu róttækrar þjóðernishyggju og hefur m.a. nýlega reynt að bera þann boðskap út um Evrópu og víðar.
Slagorð Trumps í kosningabaráttunni, „Gerum Bandaríkin frábær að nýju“, bergmála einnig í slagorðum Bolsonaro. „Brasilía ofar öllum, guð ofar öllu,“ er hans helsta slagorð. Með því að bæta guði inn í myndina hefur hann höfðað rækilega til milljóna manna sem tilheyra evangelísku kirkjunni í landinu.
En líkt og gerðist í kjölfar kjörs Donalds Trump þá hefur kröftug óánægjualda nú gosið upp meðal margra Brasilíumanna og er þjóðin nú sögð klofin í herðar niður. Verð hlutabréfa í landinu hefur lækkað frá kosningunum um síðustu helgi og er óvissu um framtíð ríkisrekinna orkufyrirtæka landsins m.a. sagt um að kenna. Bolsonaro ítrekaði nefnilega áform sín um einkavæðingu. Þá liggur nú ráðgjafi Bolsonaro í efnahagsmálum undir grun um fjármálamisferli og er rannsókn á málinu hafin. Er fjárfestingasjóður ráðgjafans m.a. talinn hafa farið ógætilega með eftirlaunasjóði opinberra starfsmanna orkufyrirtækja.
Keppinauturinn Fernando Haddad hefur reynt að nýta sér þessar fréttir sér til framdráttar á síðustu metrum kosningabaráttunnar og krefst þess að kappræður milli þeirra tveggja fari fram í sjónvarpi.
Óvíst er hversu mikil áhrif málið mun hafa á Bolsonaro sem hefur enn sem komið er umtalsvert forskot á Haddad.
Því má ekki gleyma að hann bar höfuð og herðar yfir Haddad í fyrstu umferð kosninganna þrátt fyrir að niðrandi orð hans um samkynhneigða og konur hafi verið dregin fram í dagsljósið sem og að hann hafi mælt pyntingum bót og einræðisstjórn hersins í Brasilíu á árunum 1964-1985.
Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var á miðvikudag nýtur Bolsonaro 58% stuðnings en Haddad stuðnings 42% kjósenda.
Bolsonaro þurfti svo aðeins að mæta í eitt viðtal í vikunni til að valda verðhruni á mörkuðum í Brasilíu, stærsta hagkerfis Suður-Ameríku. Í viðtalinu sagði hann að áform sín um einkavæðingu myndu ekki ná til lykilfyrirtækja í eigu ríkisins, s.s. olíufyrirtækisins Petrobras. Hann bætti svo við að af Kína, sem síðustu ár hefur orðið helsti lánardrottinn Brasilíu og mesta viðskiptaland, stafaði ógn. „Kína er ekki að fjárfesta í Brasilíu, Kína er að kaupa Brasilíu,“ sagði hann.
Hann sagði svo, mörgum til mikilla vonbrigða, að hann myndi fara hægt í sakirnar að breyta hinu ósjálfbæra eftirlaunakerfi landsins sem margir höfðu bundið vonir við að yrði hans fyrsta verk.
Við lokun markaða höfðu bréf í ríkisrekna orkufyrirtækinu Eletrobras fallið um 8,4% og í olíufyrirtækinu Petrobras um 2,9%.
Óttast er að mikil sundrung sé nú meðal Brasilíumanna þar sem frambjóðendurnir tveir eru í öllum grundvallaratriðum gjörólíkir. Stuðningsmenn Haddads segjast aldrei ætla að sætta sig við Bolsonaro og öfugt. Ofbeldisverk hafa verið framin. Sérstaklega gegn stuðningsmönnum Haddads.
Á miðvikudag var haldin minningarathöfn um 63 ára stuðningsmann Haddads sem var stunginn til bana á bar eftir að hafa lýst þeirri skoðun sinni að Verkamannaflokkur Haddads nyti meiri stuðnings en Bolsonaro.
Bolsonaro hefur vissulega vakið athygli heimsins og hafa leiðarahöfundar ýmissa fjölmiðla, m.a. The Guardian og The Economist, varað við því að Bolsonaro sé ógn við lýðræðið í heimalandi sínu.
En leiðarahöfundur Wall Street Journal, sem er í eigu Ruperts Murdoch, yfirlýsts stuðningsmanns Donalds Trump, blæs á þennan kvíða gagnvart stjórn Bolsonaro „sem lofi að gera Brasilíu frábæra í fyrsta skipti“. Varar leiðarahópur blaðsins miklu frekar við því að Haddad komist til valda sem hann segir vilja taka upp stjórnunarhætti líka þeim sem viðgangast í Venesúela. „Það kemur varla á óvart að Brasilíumenn tengi við frambjóðanda sem lofar einhverju betra.“