Þýski hægriflokkurinn AfD kom á laggirnar vefsíðu fyrir nemendur í Hamborg, þar sem nemendum var boðið að tilkynna kennara sem höfðu uppi orðræðu fjandsamlega flokknum. Framferði AfD í þessu máli hefur vakið hörð viðbrögð.
Vefsíðunni er þannig lýst af talsmönnum flokksins, að þetta sé gert til þess að standa vörð um hlutleysi kennara. Þannig eru ábendingar nemenda nafnlausar og ef þeir sem taka við ábendingunum sjá ástæðu til, koma þeir þeim áleiðis til stjórnar viðkomandi skóla.
Eins og búast má við eru margir ósáttir við þetta athæfi. Foreldrar nemenda mótmæltu víða. Katarina Barley, dómsmálaráðherra Þýskalands (SPD), kenndi framferði AfD við einræðistilburði og sagði þetta aðför að lýðræðinu.
Vefsvæðið hefur verið starfrækt síðan í september. Nú metur flokkurinn hvort hann eigi ekki að færa út kvíarnar og bjóða upp á þetta víðar. Nemendur sem foreldrar eru hvattir til að tilkynna ötult um neikvæða umræðu um AfD í kennslustofunni. Flokkurinn segir fleiri en 1.000 tilkynningar hafa borist fyrstu dagana.
Alternative für Deutschland er hægriflokkur. Hann hefur á síðari árum, samkvæmt BBC, lagt æ meiri áherslu á orðræðu gegn innflytjendum og múslimum. Flokknum er t.d. víða stillt upp sem baráttubróður hins franska Rassemblement national (áður Front national). Þá var Alexander Gauland, annar formanna flokksins, á dögunum sakaður um að taka pistla sjálfs Hitlers til fyrirmyndar í blaðaskrifum sínum.