„Ég vissi að eitthvað væri að þegar fjósbryggjan flaut fram hjá eldhúsglugganum,“ segir Torkjell Sollesnes, bóndi í Fortunsdalen í Sognsæ og Firðafylki, í viðtali við NRK í dag en honum tókst með naumindum að bjarga geitunum sínum 13 áður en fjósið sjálft fylltist gruggugu straumvatni Fortunsárinnar.
Norðmenn hafa síðasta sólarhringinn orðið vitni að veðuröfgum sem eiga sér vart hliðstæðu í sögu landsins. Klukkan tvö í nótt, á miðnætti að íslenskum tíma, mældist hitastig í Tafirði í Mæri og Raumsdal 11 gráður sem er svo sem ekki í frásögur færandi, en á næstu klukkustundinni hækkaði hitinn upp í 25,5 gráður og bráðnaði í kjölfarið slíkt snæmagn á fjöllum að ár flóðu yfir bakka sína auk þess sem hellirigndi. NRK birtir myndir frá svæðinu og ræðir auk þess við veðurfræðinginn Bente Wahl sem segir hitastig 2.000 metra yfir sjávarmáli hafa mælst tíu gráður í nótt sem sé nánast óþekkt í október.
Í sveitarfélaginu Skjåk í Oppland-fylki, norður af Ósló, hefur verið lýst yfir neyðarástandi og eru stórir hlutar bæjarins á kafi í vatni úr Otta-ánni auk þess sem öllum vegum í nágrenni Skjåk hefur verið lokað. Fólk vinnur nú hörðum höndum að því að bjarga húsbúnaði og verðmætum af heimilum sínum sem mörg hver standa til hálfs í vatni svo sem sjá má af myndinni sem fylgir fréttinni en hana tók lögreglan í Oppland.
Neyðarathvörfum hefur verið komið upp í þeim hlutum bæjarins sem ofar standa og er farfuglaheimilið Skjåk Turistheim eitt þeirra athvarfa. „Hér gæta allir hver annars,“ segir Sissel Brenna, rekstrarstjóri farfuglaheimilisins, í viðtali við dagblaðið VG í morgun. Hún segir hitastig í Skjåk nú mælast 19,9 gráður sem sé nánast óhugsandi á þessum árstíma en í síðustu viku féll fyrsti snjórinn þar á bæ og hefur hann nú skilað sér niður í byggð í vökvaformi í þessu óvenjulega árferði.
Í Nordfjord í Sognsæ og Firðafylki og í Voss í Hörðalandi, en hvorir tveggju staðirnir eru nálægt vesturströnd Noregs, hafa tjaldstæði verið rýmd í skyndi en í Nordfjord hefur stöðuvatnið Breims náð slíku umfangi að það flæðir nú um Reed-tjaldsvæðið og greinir netmiðillinn Nettavisen frá því.
„Ég er í hreinum vafa, hvað á maður eiginlega að gera?“ spyr Inge Johnsen, rekstrarstjóri svæðisins, í viðtali við staðarmiðilinn Firda sem lokaður er öðrum en áskrifendum en Nettavisen vísar í samtalið. „Hér er 22 stiga hiti svo fólk gæti nánast baðað sig í vatninu,“ segir Johnsen enn fremur, „en hér verður ekki glæsilegt um að litast eftir á [þegar flóðið sjatnar],“ segir hann að lokum.
Aðrar en þegar tilvísaðar fréttir norskra miðla af flóðunum: