Bandarísk og bresk stjórnvöld íhuga að sniðganga stóra alþjóðlega ráðstefnu sem á að fara fram í Sádi-Arabíu vegna hvarfsins á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi.
Khashoggi, sem var gagnrýninn á stjórnvöld í Sádi-Arabíu, hvarf 2. október eftir að hafa heimsótt ræðismannsskrifstofu sína í Istanbúl í Tyrklandi.
Tyrknesk yfirvöld telja að útsendarar á vegum yfirvalda í Sádi-Arabíu hafi myrt hann, að því er segir á vef BBC. Sádi-arabísk stjórnvöld vísa þessu á bug og segja að það sé lygi.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að hann muni refsa Sádi-aröbum beri þeir ábyrgð á dauða Khashoggi.
Nokkrir styrktaraðilar og fjölmiðlaveitur hafa vegna málsins ákveðið að hætta við að taka þátt í stórri fjárfestaráðstefnu sem á að fara fraí Riyadh, sem hefur verið kölluð Davos-ráðstefnan í eyðimörkinni.
BBC hefur eftir heimildarmönnum að Steve Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Liam Fox, viðskiptamálaráðherra Bretlands, séu nú að íhuga að mæta ekki á ráðstefnuna, sem er í boði Mohammeds bin Salmans, krónprins Sádi-Arabíu, en hann ætlar sér að kynna á ráðstefnunni nýja umbótaáætlun sína fyrir landið.