Norsk stjórnvöld hafa beðist opinberlega afsökunar á þeirri „skammarlegu meðferð“ sem norskar konur urðu fyrir í hefndarskyni fyrir sambönd þeirra við þýska hermenn meðan á hernámi Þjóðverja stóð í Noregi.
Á bilinu 30 til 50 þúsund norskar konur, þekktar sem „þýsku stúlkurnar“, voru í samböndum með hermönnum meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð, samkvæmt upplýsingum frá norskri rannsóknarmiðstöð helfarar og minnihlutahópa.
Auk þess að vera niðurlægðar opinberlega lentu konurnar í hefndaraðgerðum af hálfu yfirvalda eftir að Norðmenn voru frelsaðir undan nasistum árið 1945. Meðal annars voru þær handteknar á ólöglegan hátt, misstu störfin sín og jafnvel ríkisborgararéttinn.
„Ungar norskar stúlkur sem áttu í samböndum með þýskum hermönnum eða voru grunaðar um það urðu fyrir skammarlegri meðferð,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
„Í dag, í nafni ríkisstjórnarinnar, vil ég biðja þær afsökunar,“ bætti hún við á viðburði sem var haldinn í tilefni þess að 70 ár eru liðin frá því að mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur.
„Hjá mörgum þeirra var þetta bara unglingaást, hjá sumum var þetta sönn ást með óvinahermanni eða saklaust daður sem átti eftir að setja mark sitt á líf þeirra,“ bætti hún við.
Alls hertóku yfir 300 þúsund þýskir hermenn Noreg í síðari heimsstyrjöldinni.