Khashoggi sagður hafa látist eftir átök

Sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi.
Sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi. AFP

Sádi-arabíski blaðamaður Jamal Khashoggi lést eftir átök á skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl, að því er sádi-arabíska ríkissjónvarpið greindi frá nú í kvöld.

Vitnaði sjónvarpsstöðin í frumrannsóknir á hvarfi Khashoggis, sem ekkert hefur til spurst frá því hann fór á ræðismannsskrifstofuna þann 2. október.

BBC fjallar um málið og segir aðstoðarforstjóra sádi-arabísku leyniþjónustunnar, Ahmad al-Assiri og Saud al-Qahtani, sem var háttsettur aðstoðarmaður krónprinsins Mohammed Bin Salman, sagðir hafa verið reknir vegna málsins.

Segir sjónvarpsstöðin 18 sádi-arabíska ríkisborgara nú sæta varðhaldi vegna rannsóknar málsins.

Tyrk­nesk stjórn­völd hafa full­yrt að Khashoggi hafi verið myrt­ur á skrif­stof­u ræðismannsins, en það er ekki fyrr en nú sem að stjórn­völd í Sádi-Ar­ab­íu hafa viðurkennt að Khashoggi sé látinn.

Salman Sádakonungur er einig sagður hafa fyrirskipað að sérstök ráðherranefnd verði skipuð undir stjórn krónprinsins með það að markmiði að endurskipuleggja leyniþjónustuna.

Sádi-arabískir ríkisfjölmiðlar greindu frá þessu skömmu eftir að Salman Sádakonungur ræddi í síma við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta um málið. Eru þeir sagðir hafa skipst á upplýsingum og hafa fallist á að halda áfram samstarfi sínu um rannsóknina, að því er BBC hefur eftir heimildamanni tengdum tyrkesku forsetaskrifstofunni.

Leitað var í dag að líki Khashoggi í skógi skammt frá Ist­an­búl, en það virðist talið að því hafi jafn­vel verið komið fyr­ir þar eða á ræktuðu svæði skammt frá. Þá hafa fimmtán starfs­menn sádi­ar­ab­ísku ræðismanns­skrif­stof­unn­ar í Ist­an­búl verið yf­ir­heyrðir af sak­sókn­ur­um. Starfs­menn­irn­ir eru all­ir tyrk­nesk­ir og telj­ast vitni í mál­inu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert