Segir skýringar Sádi-Araba trúverðugar

Trump telur skýringar Sádi-Araba mikilvægt fyrsta skref.
Trump telur skýringar Sádi-Araba mikilvægt fyrsta skref. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir skýringar Sádi-Araba á dauða sádiarabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi trúverðugar og „mikilvægt fyrsta skref“. AFP-fréttastofan greinir frá.

Sádiarabíska ríkissjónvarpið greindi frá því í gærkvöldi að Khashoggi hefði látist eftir átök á skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi, en ekkert hefur spurst til blaðamannsins síðan hann fór inn á skrifstofuna 2. október. Fram kom að átján sádiarabískir ríkisborgarar sættu nú varðhaldi vegna málsins. Því hefur verið haldið fram að tyrkneska leyniþjónustan hafi sterkar vísbendingar um að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi fyrirskipað morðið á Khashoggi.

„Mér finnst það já,“ sagði Trump, spurður hvort honum þættu skýringar Sádi-Araba trúverðugar. „Þetta liggur enn ekki ljóst fyrir, við höfum ekki lokið rannsókn okkar, en ég tel að þetta sé mikilvægt fyrsta skref.“

Trump sagði jafnframt að komi til aðgerða af hálfu Bandaríkjanna vegna málsins þá vilji hann ekki að það hafi áhrif á mikilvæg hergagnaviðskipti landanna. Forsetinn hefur í raun sent frekar misvísandi skilaboð varðandi hugsanlegar aðgerðir í tengslum við dauða blaðamannsins, en hann hefur bæði sagt að gripið verði til aðgerða, komi í ljós að hátt settir embættismenn beri ábyrgð á dauða hans og jafnframt að vernda þurfi góð og náin samskipti Bandaríkjamanna við konungdæmið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert